Bæjarlist María Magnúsdóttir er Garðbæingur.
Bæjarlist María Magnúsdóttir er Garðbæingur.
María Magnúsdóttir, söngkona og tónskáld, er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2018. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin nú í vikunni.

María Magnúsdóttir, söngkona og tónskáld, er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2018. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin nú í vikunni. Þar var einnig tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna þar sem fjögur verkefni sex ungmenna hlutu styrk og veittar voru viðurkenningar til Kvenfélags Garðabæjar og Kvenfélags Álftaness fyrir framlag til menningar og lista í Garðabæ.

María Magnúsdóttir hefur um árabil verið virk í tónlistarlífi hér á landi. Hún flutti fyrir ekki svo löngu aftur inn fyrir landsteinana eftir tónlistarnám erlendis en hefur verið fljót að láta til sín taka í íslensku tónlistarlífi með fjölmörgum tónleikum, bæði sem jazzsöngkona og í eigin verkefnum síðustu misseri, að því er fram kemur í tilkynningu.

Fjölbreyttur ferill

Grunnskólagöngu sína tók María í Garðabæ og steig sín fyrstu skref í tónlist í Skólakór Garðabæjar og í Tónlistarskóla Garðabæjar. Hún lauk burtfarar- og kennaraprófi frá Tónlistarskóla FÍH 2008 en áður en hún hélt utan í frekara nám í tónlist starfaði hún hér á landi sem tónlistarkennari, stýrði og útsetti fyrir ýmsa kóra.

Á árunum 2011 – 2016 bjó María fyrst í Hollandi þar sem hún lauk Bachelor-prófi í jazzsöng og tónsmíðum við Konunglega listaháskólann í Haag. Eftir það lá leiðin til London þar sem María lauk gráðunni Master of Popular Music með áherslu á hljóðupptökur og tónsmíðar fyrir miðla.

María hefur komið víða við í tónlist, hefur starfað sem söngkona og flutt eigið efni og annarra síðan 2006. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2009 sem bar heitið Not Your Housewife .

Heildstætt verk

María hefur síðustu ár samið og útsett orchestral-popptónlist undir listamannsheitinu MIMRA. Fyrsta plata MIMRU kom út í október 2017 og ber heitið Sinking Island . Platan er heildstætt verk út í gegn þar sem María er ekki eingöngu flytjandi og höfundur heldur sá einnig um upptökustjórn og hljóðhönnun. Framundan hjá Maríu er tónleikaferðalag um landið dagana 9.-21. júní næstkomandi.