Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Leik- og söngkonan Jana María Guðmundsdóttir heldur útgáfutónleika í Tjarnarbíói í kvöld kl. 21 vegna fyrstu breiðskífu sinnar, FLORA , sem kom út í nóvember í fyrra. Platan hefur að geyma tíu lög og texta eftir Jönu og á plötunni leika Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð og hljóðgervla og stýrði hann jafnframt upptökum, Guðmundur Óskar Guðmundsson á bassa, Gróa Valdimarsdóttir á fiðlu, Magnús Jóhann Ragnarsson á hljóðgervla, Magnús Trygvason Eliassen á trommur og Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló.
Verkefnin síbreytileg
„Í vetur hef ég verið að kenna í söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz svo söngurinn hefur hlotið örlítið meiri fókus en svo koma tímar þar sem leiklistin tekur yfir,“ svarar Jana þegar hún er spurð að því hvor listgreinin skipi stærra hlutverk hjá henni, leiklistin eða sönglistin. „Sem betur fer eru verkefnin mjög síbreytileg því ég lít á þetta sem eina heild og vil vinna jöfnum höndum með leiklist, söng, skrif og allt því tengt: að skapa. Þessar listgreinar eru að mínu mati nátengdar, styðja við hver aðra svo það er snúið að gera upp á milli þeirra.“En hvernig tónlist er á plötunni? „Tónlistin er byggð upp eins og hefðbundin popptónlist en er undir sterkum áhrifum af djassi, kvikmyndatónlist og triphoppi,“ svarar Jana. Spurð að því hvort hún hafi litið til einhverra tiltekinna tónlistarmanna við gerð plötunnar svarar hún því til að kanadíska söngkonan Feist sé einn af áhrifavöldum hennar þó svo útsetningarnar á FLORU séu stærri og hlaðnari en gítarskotin tónlist Feist. „Portishead, Duke Ellington og gömlu meistarar djassins eru líka ótvíræðir áhrifavaldar,“ bætir Jana við.
Óvart á ensku
– Lögin eru á ensku, hvers vegna eru þau ekki á íslensku?„Það gerðist raunar alveg óvart. Ég vinn erlendis líka og enskan var því mikið í kringum mig þegar ég var að semja. Þegar ég fór að hugsa um heildarsvip og þurfti að taka ákvörðun um hvort platan yrði á íslensku eða ensku áleit ég svo að platan þyrfti stærri hlustendahóp en Ísland og því nærtækara að semja texta á ensku til að ná til fleira fólks,“ svarar Jana.
– Þið Stefán unnuð saman úr lögum og textum, hvernig kom ykkar samstarf til?
„Við höfðum unnið saman í íslenskum söngleik, Revolution in the Elbow Of Ragnar Agnarsson Furniture Painter , í New York fyrir nokkrum árum þar sem hann var tónlistarstjóri og ég aðstoðarleikstjóri. Þegar við hófum samstarf fyrir FLORU var fyrirkomulagið á þann veg að ég samdi lögin og textana, kom með demó í stúdíó til Stefáns þar sem við unnum saman úr hugmyndum að hljóðheimi sem hann síðan útsetti.“
Prýðilegt regnhlífarheiti
– Er eitthvert þema hvað textana varðar, um hvað fjalla þeir?„Textarnir vísa í fjölbreytileika mannsins eða flóru náttúrunnar. Sögurnar sem birtast í textunum er fjölbreyttar og endurspegla upplifun mína af ferðalögum og vistaskiptum við fólk. Mér þótti FLORA prýðilegt regnhlífarheiti yfir þær sögur sem þarna koma fram því hægt er að finna öll sömu litbrigði, hegðun og orku í náttúrunni sjálfri.“
41 mínútu myndband
– Þið eruð að fara að taka upp myndband fyrir alla plötuna, 41 mínútu langt. Hvers konar myndband verður það og hvers vegna er þessi leið farin, að taka upp eitt langt myndband fyrir alla plötuna?„ FLORA er byggð upp eins og flæði, eitthvað sem hefur upphaf og endi á sama stað og vísar í náttúruna sem er stöðug hringrás, endurnýjun. Ég var svo heppin að kynnast hópi ungra dansara í FWD Youth Company sem vinna þetta verkefni með mér af miklum áhuga. Hugmyndin var að nota líkama til að mynda bókstafi úti í náttúrunni í stöðugu flæði; mynda titla plötunnar, fara inn í þá og út úr þeim í stöðugri tengingu við jörðina,“ segir Jana. „Okkur fannst áhugaverð áskorun að taka upp eitt langt myndband og endurspegla hringrásina með því að láta dansara og jörðina mætast í gegnum alla plötuna.“
Hljómsveitina sem fram kemur með Jönu í kvöld skipa Magnús Jóhann Ragnarsson á hljómborð og syntha, Bergur Einar á trommur og slagverk og Valdimar Olgeirsson á bassa og syntha. Ingibjörg Fríða og Gyða Margrét syngja bakraddir. Miðasala fer fram á tix.is.