Das Cabinet des Dr. Caligari er þýsk sálfræðihrollvekja.
Das Cabinet des Dr. Caligari er þýsk sálfræðihrollvekja.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til er fólk sem horfir einfaldlega ekki á hryllingsmyndir. Annar hópur nýtur þess að kveljast fyrir framan skjáinn, láta hrella sig og hræða. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Fimmtugsafmæli einnar þekktustu hryllingsmyndar síðustu aldar, Rosemary's Baby nálgast óðfluga í leikstjórn Roman Polanski.

Myndin á dygga aðdáendur en einkum er það þétt handrit og leikur Miu Farrow sem þykir gera myndina að því sem hún er en myndin er byggð á metsölubók Ira Levin.

Myndin fjallar um unga konu sem fer að trúa því að barn sem hún ber undir belti sé ekki af þessum heimi. John Casavetes lék eiginmann Farrow í myndinni en þau hjónin flytja til New York þar sem konan þekkir engan, einangrast og fer að heyra raddir en hún telur að djöfullegur sértrúarsöfnuður vilji koma höndum yfir barnið og nota í andkristnum athöfnum.

Myndin vann til fjölda verðlauna og fékk lofsamlega dóma um allan heim og þykir hafa haft mikil áhrif á þær hryllingsmyndir sem á eftir komu.

Rosemary's baby er ekki eina hryllingsmyndin sem hefur fengið glimrandi dóma en þær eru miklu fleiri sem hafa fengið hræðilega dóma. Raunar eru hryllingsmyndir almennt líklegri til að fá slæma dóma og fáar myndir í þessum flokk hafa fengið góða gagnrýni. Þær eru þó þar á meðal þessar:

  • Ein sú besta er orðin næstum 100 ára gömul. Das Cabinet des Dr. Caligari er þýsk sálfræðihrollvekja frá 1920 sem var ólík öllum kvikmyndum sem gerðar höfðu verið þegar hún kom út, í leikstjórn Robert Weine eftir handriti Carl Mayer og Hans Janowitz en síðar kom hún út vestanhafs og í Bretlandi undir titlinum The Cabinet of Dr. Caligari. Myndin fjallar um mann sem reynir á fullorðinsárum að finna geðveikan dáleiðanda sem hann hitti sem barn og hafði slæm áhrif á líf hans. Hann leitar til lögreglunnar en síðar kemur í ljós að hann á sjálfur við andleg veikindi að stríða og minningarnar ekki raunverulegar.

  • Tveimur árum eftir frumsýningu Das Cabinet des dr. Caligari kom út önnur hryllingsmynd í Þýskalandi sem þykir ekki síðri. Nosferatu , eine Symphonie des Grauens er mynd um vampíru sem Max Schreck þótti leika með einstökum tilþrifum. Einn af gullmolum þöglu myndanna.

  • The Night of the Hunter frá 1955 í leikstjórn Charles Laughton fjallar um óhugnanlega morðingja sem ógnar einkum börnum en hann giftist ekkju sem á barnahóp. Myndin fjallar um baráttu góðs og ills en aðalpersónan er með tattú á fingrum sem mynda orðin „ást“ og „hatur“. Líklega með fyrstu skiptum sem slík tattú, sem algeng eru í dag, sjást. Með aðalhlutverk fara Robert Mitchum, Shelley Winters og Lillian Gish.

  • Ein af betri hrollvekjum síðari tíma er frá 2008, Låt den rätte komma in , sem byggð er á samnefndri bók sænska rithöfundarins John Ajvide Lindqvist. Myndin minnir um margt á vampírumynd þótt hún sé alls ekki hefðbundin sem slík. Hún segir frá 12 ára strák, Oskar, í Stokkhólmi sem býr við lélegt atlæti heima við og er strítt í skóla. Hann kynnist stúlku, Eli, sem verður vinkona hans, hvetur áfram og styrkir. Eli þolir illa sólskin og hefur litla matarlyst og þarf að drekka blóð annarra til að lifa af. Að þessu kemst Oskar og þarf að taka erfiðar ákvarðanir.