Stjórn Félag kvenna í atvinnurekstri heldur úti öflugu starfi.
Stjórn Félag kvenna í atvinnurekstri heldur úti öflugu starfi. — asdad
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, og Lilja Bjarnadóttir, lögmaður og eigandi Sáttaleiðinarinnar ehf., voru á dögunum kjörnar nýjar í stjórn Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA).

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands, og Lilja Bjarnadóttir, lögmaður og eigandi Sáttaleiðinarinnar ehf., voru á dögunum kjörnar nýjar í stjórn Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA). Anna Þóra Ísfold, ráðgjafi og eigandi Isfold markaðsráðgjafar, var endurkjörin.

Að auki sitja áfram í stjórn frá fyrra ári Áslaug Gunnlaugsdóttir, lögmaður og einn eigenda LOCAL lögmanna, Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi og meðeigandi ráðgjafafyrirtækisins Strategíu ehf., Ragnheiður Aradóttir, stofnandi og eigandi viðburðafyrirtækisins PROevents og þjálfunarfyrirtækisins PROcoaching, og formaður FKA, Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Spyr.

Margt er framundan í starfi FKA sem á næsta ári er tuttugu ára. „Það er því mikill fengur fyrir okkur að til stjórnarsetu skuli bjóðast kröftugur hópur kvenna með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu en þess má geta að til viðbótar við stjórnarkjör á aðalfundi voru ríflega 100 konur skráðar í nefndar- og deildarstörf fyrir starfsárið 2018-2019,“ segir í tilkynningu, haft eftir Rakel Sveinsdóttur, formanni FKA.

1.100 konur í félaginu

Í FKA eru um 1.100 félagskonur og er helmingur þeirra forstjórar, framkvæmdastjórar og eigendur fyrirtækja. Meðal stærri verkefna FKA síðastliðin ár hefur verið átak til að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, aukin hlutdeild kvenna í stjórnum félaga og nú síðast verkefnið Jafnvægisvogin , sem ætlað er að stuðla að aukinni hlutdeild kvenna í efra lagi fyrirtækja.