[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Fjórði úrslitaleikur FH og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla fer fram í Kaplakrika í dag og verður flautað til leiks klukkan 16.30.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Fjórði úrslitaleikur FH og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla fer fram í Kaplakrika í dag og verður flautað til leiks klukkan 16.30. Eftir tap í Eyjum í fyrrakvöld eru FH-ingar með bakið upp við vegginn. Þeir verða að vinna í dag til að knýja fram oddaleik á þriðjudagskvöld í Vestmannaeyjum. Takist það ekki fara leikmenn ÍBV með Íslandsbikarinn í farteskinu heim.

Nær öruggt er að sjóða mun á keipum í Kaplakrika í dag. Um fátt var meira rætt í fyrrakvöld og í gær en brot Eyjamannsins Andra Heimis Friðrikssonar á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni, FH-ingi, snemma í leiknum í fyrrakvöld. Sitt sýndist hverjum en víst er að atvikið, sem var ljótt, og afleiðingar þess munu setja sterkan svip á leikinn í Kaplakrika og auka á spennuna, innan sem utan vallar.

Stjórn HSÍ tók málið upp í gær og ákvað að vísa leikbroti Andra Heimis til aganefndar til úrskurðar. Er það gert samkvæmt 18. grein reglugerðar HSÍ um agamál þar sem segir að stjórnin hafi heimild til þess að „vísa til úrskurðar aganefndar hvers konar atvikum, svo sem bæði leikbrotum og agabrotum, sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar, hvort sem viðkomandi hefur tekið þátt í leiknum eða ekki, og ekki hafa komist fram í atvikaskýrslu dómara eða eftirlitsmanns.“

Ákvörðun stjórnar HSÍ, eftir miklar vangaveltur, kom á óvart enda var hún ekki óumdeild, en óhjákvæmileg í ljósi þungrar umræðu í gær.

Aganefnd kemur saman fyrir hádegi í dag og fer yfir hvort Andri Heimir verði úrskurðaður í leikbann sem tæki þá gildi strax eða ekki.

Í gær benti flest til þess að Gísli Þorgeir tæki ekki þátt í leiknum í dag. Hann hlaut þungt höfuðhögg eftir viðskipti sín við Andra Heimi auk þess sem hann meiddist á annarri öxl. Þau meiðsli virðast ekki síður alvarleg en höfuðhöggið. Þess utan fékk Gísli Þorgeir skurð á höfuðið við höfuðhöggið og „voru saumuð nokkur spor í höfuð FH-ingsins“ sagði í frétt mbl.is í gær.

Ásbjörn Friðriksson tognaði í kálfa í fyrsta leik liðanna og hefur ekkert komið við sögu síðan inni á leikvellinum. Ásbjörn ætlar að gera hvað hann getur til þess að vera með í dag enda er að duga eða drepast fyrir FH-liðið. Óvíst er að Ásbjörn hafi jafnað sig það vel að hann geti beitt sér af fullum krafti stóran hluta leiksins. Allt verður lagt í sölurnar til þess að ná í oddaleik.

Án Gísla Þorgeirs, og komi til þess að Ásbjörn getur ekki verið með af krafti, verður sannarlega á brattann að sækja fyrir FH-inga á heimavelli í dag. Allt þarf að ganga upp hjá FH í leiknum til þess að þeir vinni og jafni metin án þeirra. FH-liðið sýndi í annarri viðureigninni við ÍBV að það getur vel fengið sókn, vörn og markvörslu til þess að smella saman í einum leik.

Breiddin er svo góð í liði ÍBV að það mun ekki slá liðið út af laginu fari svo að Andri Heimir verði úrskurðaður í bann á fundi aganefndar árdegis. Minna má á að ÍBV var án Magnúsar Stefánssonar í tveimur leikjum af þremur gegn Haukum í undanúrslitum á dögunum.