Magnús Sigurðsson segist vera að f´lýja sj´álfan sig svo lítið í Tregahandbókinni.
Magnús Sigurðsson segist vera að f´lýja sj´álfan sig svo lítið í Tregahandbókinni. — Morgunblaðið/Hari
Í nýrri ljóðabók fléttar Magnús Sigurðsson textabrotum, hugleiðingum og ljóðum saman í 250 liða leiðarvísi um tregaslóðir hugans. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Ljóðskáldið Magnús Sigurðsson hefur starfað við þýðingar og önnur ritstörf á undanförnum árum og sent frá sér nokkur ljóðasöfn. Nýjasta ljóðasafn hans er ekki eiginleg ljóðabók, og þó: Í Tregahandbókinni eru vissulega ljóð eftir Magnús, en birtast innan um textabrot úr ýmsum áttum og hugleiðingar Magnúsar og spuna, eða eins og segir í kynningu á bókinni: „Í 250 liðum er vörðuð hin villugjarna leið um tregaslóðir hugans.“

— Ég verð að viðurkenna það að þegar ég opnaði bókina í fyrsta sinn fannst mér sem hún væri safn af allkyns ósamstæðum tilvitnunum og tilsvörum sem þú hefðir rekist á, en þegar ég fór að lesa hana sá ég að í henni var þráður, ekki síst fyrir það að þú hnýtir textann saman með ljóðum.

„Þetta er í raun og veru svolítið ópersónuleg bók, en á sama tíma finnst mér vera meira af sjálfum mér í þessari bók en mörgum öðrum. Ég hef gefið út nokkrar ljóðabækur og ljóðlistin er álitin form innstu tilfinninga, einlægra innstu tilfinninga, en í Tregahandbókinni er ég svolítið að flýja sjálfan mig fremur en hitt. Um leið kemst ég þó kannski nær sjálfum mér en oft áður.“

„Það er þetta að leita að sjálfum sér í öðrum“

— Má segja að þú sért að sýna okkur hráefnið, hugsanirnar?

„Stundum þarf maður ekki að tjá eigin hugsanir og eigin tilfinningar af því þær hafa verið tjáðar áður og oft kannski með miklu betri hætti en manni er unnt sjálfum. Það er þetta að leita að sjálfum sér í öðrum og það gerir maður til dæmis í lestri. Ekki endirlega í lestri hábókmennta, heldur, eins og ég geri, í endurminningum íslensks alþýðufólks. Ég sæki í það og blanda saman við þekktari höfunda sem hafa fylgt mér.

Ég held við getum lært heilmikið af þolgæði fólks í gamla daga, þetta er fólk sem gekk í gegnum ótrúlegustu hluti og þegar það rekur ævi sína á gamals aldri, þá barmar það sér ekki. Eflaust var það leið fólks til að lifa af áður fyrr, að sópa þessu undir teppið að einhverju leyti, og auðvitað er ekki mælst til þess af sálfræðingum og öðrum, öllu má nú ofgera, en við erum kannski komin akkúrat allt of langt í hinar öfgarnar; það er lögð rosaleg áhersla á mýkt, maður á að opna sig og tjá tilfinningar sínar, en á móti kemur að maður þarf líka að hafa harðan skráp.“

— Líður þér ekki betur þegar þú opnar þig og tjáir tilfinningar þínar með því að gefa út ljóðabók?

„Jú, sumir segja að það sé sjálfsþerapía og það er það vissulega. Lestur er það líka, það er tjáning í lestri. Lestur er mjög persónuleg athöfn.“

Bútasaumur að nokkru leyti

— Þú nefndir að stundum tjáir það sem þú lest tilfinningar þínar betur en þú gætir sjálfur, en ég upplifi ekki endilega sömu tilfinningar og þú við lestur á sama texta. Er hægt að miðla þessum tilfinningum áfram?

„Þá komum við að því að semja bókina sjálfa. Þetta er bútasaumur að nokkru leyti og ég þurfti að leggjast svolítið yfir hvernig ég set fram þetta hráefni sem ég er að vinna með. Þurfti að fara ýmsar krókaleiðir í því og gera ýmsar tilraunir þangað til ég datt niður á þessa aðferð að skipta þessu niður í 250 ólíka liði sem þó vonandi hanga saman að einhverju leyti. Lestur er mjög skapandi og ég gef lesanda tækifæri til þess að yrkja í eyðurnar sem eru á milli þessara brota, hann fyllir upp í eyðurnar með eigin innsýn, eigin túlkun, eigin sköpun, fetar sig eftir þessum ratleik sem bókin er.“

– Hvað hefir þú verið lengi að sanka að þér tilvitnunum og skrifa athugasemdir?

„Þetta er orðinn rúmur áratugur. Ég skrifa inn í bækur, sem mörgum finnst ómögulegt af mér. Svo fór ég í það að fara í gegnum eigið bókasafn og skrá niður þessar athugasemdir mínar og var þá kominn með talvert efni í hendurnar, miklu meira en er í bókinni sjálfri, og síðan vann ég úr því efni. Ljóðin urðu til eins og ljóð verða til, gera ekki boð á undan sér, og þau voru ekki ort með þetta verk í huga sérstaklega, en ég reyndi síðan að steypa þessu saman.“