Ragnar Hallsson var fæddur í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal 27. júlí 1933. Hann lést þann 12. maí 2018 á Dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi.
Foreldrar hans voru hjónin Hallur Magnússon og Hrafnhildur Einarsdóttir í Hallkelsstaðahlíð. Ragnar var eitt tólf barna þeirra hjóna. Þau eru Einar, f. 1927, Sigríður Herdís, f. 1928, Anna Júlía, f. 1930, Sigfríður Erna, f. 1931, Ragnar, f. 1933, Margrét Erla, f. 1935, Guðrún, f. 1936, Magnús, f. 1938, Sveinbjörn, f. 1940, Elísabet Hildur, f. 1941, Svandís, f. 1943, og Halldís, f. 1945. Látin eru Magnús, Einar, Guðrún, Svandís.
Ragnar var bóndi í Hallkelsstaðahlíð, hann fór eitt sumar til síldveiða, starfaði nokkur haust í sláturhúsi að Syðstu Görðum og var kaupamaður á bæjum í sveitinni. Ragnar átti sæti í hreppsnefnd Kolbeinsstaðahrepps um langt árabil, formaður Hestamannafélagsins Snæfellings, sat í stjórn UMF Eldborgar og var einn af máttarstólpum félagsins á aðalblómatíma þess í keppnisíþróttum, formaður Búnaðarfélags Kolbeinsstaðahrepps og tók virkan þátt í störfum Framsóknarflokksins.
Hann hlaut heiðursviðurkenningar hjá Hestamannafélaginu Snæfellingi, Hrossaræktarsamtökum Vesturlands og Ungmennafélaginu Eldborgu.
Útförin fer fram frá Kolbeinsstaðakirkju í dag, laugardaginn 19 maí, og hefst kl 14.
Elsku nafni minn, heilsu þinni hafði hrakað mikið síðast liðin ár sem olli því að þú gast ekki gert allt sem þú vildir gera, né verið þar sem þú átt heima, í sveitinni þinni. En ég trúi því að núna sért þú kominn á betri stað, eflaust mættur í sauðburð til að fylgjast með og sjá til þess að allt gangi smurt.
Hann nafni var svo einstaklega ljúfur og rólegur maður, með einstaka nærveru og barngóður. Við náðum vel saman og ein af hefðum okkar var að hringjast á milli á afmælum og á aðfangadag og var spjallað tímunum saman, umræðuefnið var aðallega íþróttir en við nafnarnir höfðum báðir gríðarlega mikinn áhuga á flest öllum íþróttum. Svo endaði samtalið iðulega á því að hann bað mig um að skila kveðju til sætustu stelpunnar.
Þó svo að báðir afar mínir væru fallnir frá þónokkuð fyrir minn tíma, þá upplifði ég aldrei neitt annað en að eiga afa, hann nafni var nefnilega hinn fullkomni afi. Ég er skírður í höfuð á honum og var samband okkar einstakt. Allar sveitaferðirnar þar sem ég fékk að vera aðstoðarmaður hans nafna eru dýrmætar minningar. Ég minnist sérstaklega þegar ég fór með honum í girðingavinnu og að henni lokinni þegar við röltum heim og rauluðum lag Valgeirs Guðjónssonar, „ég held ég gangi heim“. Mér þótti svo gaman að í einni af seinustu heimsókn minni til þín á dvalarheimilið Brákarhlíð þá raulaðir þú smá bút úr laginu með þitt einstaka bros á vör. Einnig eru ófáar minningar um sauðburð og réttir, fyrsta skiptið sem ég fékk að taka næturvaktina í sauðburðinum er ofarlega í huga ásamt öllum réttunum þegar við gengum um réttina og þú bentir mér á hvaða kind, lamb eða hrút ég átti að draga á sinn stað.
Elsku nafni minn, þín verður sárt saknað en allar dásamlegu minningarnar ylja manni um hjartarætur. Þú situr eflaust við hlið systkina þinna og fylgist með okkur öllum. Sveitin þín er í frábærum höndum Sigrúnar systur, Skúla og Mumma. Takk fyrir alla samveruna og samtölin okkar. Takk fyrir að vera besti „afi“ sem hægt er að óska sér.
Nafni, Ragnar Sverrisson.
Að fá að alast upp í fallegri sveit með góðu fólki er dýrmætt og fyrir lítið stelpuskott er ómetanlegt að fá að hafa góðan frænda eins og þig til staðar.
Þær eru hlýjar minningarnar sem koma upp þegar ég hugsa til baka í Hlíðina góðu þar sem alltaf var nóg að gera og þar sem maður fékk alltaf að vera með í því sem þurfti að gera.
Sauðburður, smalamennsku, hestastúss, sláttur og allt þar á milli. Það var alltaf gaman að fá að fara með þér í svona stúss og þarna var hugur þinn og hjarta alla daga, í fallegu sveitinni þinni.
Ein af fyrstu minningum mínum er þegar ég fékk að sitja fyrir framan þig á hesti þeysandi yfir Háholtin þegar smala var verið úr fjallinu eitt haustið.
Það var líka alltaf spennandi þegar þú fórst í kaupstaðarferð í Borgarnes því þá vissi ég að við krakkarnir fengjum appelsín í gleri og prins póló þegar þú kæmir heim og það klikkaði aldrei, ekki í eitt skipti.
Oftar en ekki voru stóru jólapakkarnir frá þér og auðvitað eru stóru pakkarnir alltaf mest spennandi.
Þú varst duglegur að taka mig með þér í hesthúsið og þar átti ég góða tíma með þér en skemmtilegast var þó alltaf þegar var sauðburður. Þá var nóg að gera, hvort sem það var við að færa stíur eða sækja fyrir þig lömb sem þú varst að marka út. Það var alltaf líka stór stund þegar þurfti að smíða palla og stíur í hlöðunni og ósjaldan fékk ég að láta reyna á misgóða lagni mína við smíðar en alltaf varstu tilbúinn að leiðbeina eða bara leyfa mér að berja hamrinum eitthvert út í loftið.
Seinna þegar ég fór svo að koma með mínar stelpur í sveitina sá ég hvernig þær sóttu í að vera nálægt þér og þú alltaf svo hlýr eins og ég man eftir þér í minni barnæsku. Daniella talar ennþá um morgnana í sveitinni þar þið sátuð saman og borðuðu AB mjólk úr glasi og alltaf átti að gera alveg eins.
Það er svo margt gott að minnast og fyrst og fremst þakklæti fyrir það að hafa fengið að hafa þig nálægt í lífinu.
En nú var kominn tími til að hvíla lúin bein og veit ég að þú verður samt ekki langt undan. Hugur þinn var ávallt í Hlíðinni og ég veit að nú ertu kominn aftur heim í þína fallegu sveit.
Hvíldu í friði, elsku frændi.
Þín
Hildur.
Hann hafði um nokkurra ára skeið dvalið á Brákarhlíð í góðu yfirlæti. Þrátt fyrir það var hugurinn oftast heima í Hlíðinni þar sem lífið hans var.
Við Ragnar áttum sameiginleg áhugamál sem sameinuðu okkur frá fyrstu kynnum allt til hans síðasta dags. Sauðfjárbúskapurinn og hestastúss var eitthvað sem okkur báðum hugnaðist vel. Hann kenndi mér svo ótal margt og var óþreytandi að svara misgáfulegum spurningum. Þolinmæði hans þegar ég varð helst að fara alla daga í fjárhúsin og fylgjast með var ótrúleg. Ég er ekki viss um að ég hafi alltaf verið til gagns með honum, ekki einu sinni komin nálægt skólaaldri. Það var þó aldrei á honum að finna annað en ég væri mikilvæg og dugleg.
Hann að skrifa í rollubækur við skrifborðið sitt, ég símalandi uppá borði.
Hann að sópa jöturnar, ég að sópa líka með lítinn kúst.
Hann að gefa kindum fóðurbæti, ég að smakka hann og þvælast fyrir.
Hann að líta eftir lambafé, ég að elta hann.
Hann að vaka yfir sauðburði, ég að vaka líka, sofnaði svo í heyinu en glaðvaknaði þegar hann bauð uppá „Vökutertuna“ sem var dásamleg brúnterta með kremi.
Hann að velja lífgimbrar, ég að fylgjast með og velja þeim nöfn eftir hans uppskrift.
Ragnar var fjárglöggur með afbrigðum og þekkti um 700 kindur með nöfnum og gat rakið ættir þeirra marga ættliði. Sauðfjárbóndi af Guðsnáð.
Ragnar átti sín uppáhalds hross, hafði gaman af því að ríða út og ferðast á hestum. Einnig var hann áhugasamur um hrossarækt og kynbætur.
Þegar Ragnar var 50 ára hélt hann uppá áfangann með því að fara í viku ferð ríðandi inn í Gilsfjörð. Sumarið sem hann varð 67 ára fór hann ríðandi með okkur í góðum hópi hestamanna norður í land. Ferðin tók rúmlega hálfan mánuð og var hann með alla ferðina. Hann naut þess að rifja þessar ferðir upp í huganum og það kom sérstakur glampi í augun þegar hann sagði „það var í ferðinni“. Um áratuga skeið var það hefð í sveitinni að fara ríðandi á hestaþing Dalamanna á Nesodda. Þeim ferðum hafði Ragnar einstaklega gaman af.
Hann átti sínar gæðastundir á hestbaki en þá sameinaði hann sín áhugamál.
Að ríða til fjalla að líta eftir lambfé var fyrir hann eins og suma að fara í margra landa reisu. Þá stoppaði hann á völdum stöðum, lagðist með kíkinn í góða brekku og kannaði landið og lífið. Spáði í gróðurinn, snjóinn í fjöllunum og hvort eitthvað hefði breyst. Þetta var helgistund, þar sem ég lærði fljótt að bæri að virða. Ég hélt í hestana og fylgdist með þeim kroppa nýgræðinginn. Þetta voru stundir til að hugsa málið eins og Ragnar kallaði það.
Það er margs að minnast enda eru það forréttindi að hafa verið honum samtíða í rúmlega hálfa öld.
Ragnar var ljúfur, góður, traustur og réttsýnn, hjá honum var gott að fá ráð.
Ég er sannfærð um að Ragnar hefur nú fengið bót meina sinna. Sennilega ríður hann á Blika sínum með þá Grána og Hring í taumi um græna dali og fögur fjöll. Og lítur til kinda um leið.
Takk fyrir allt það sem þú varst mér og mínum.
Sjáumst síðar, elsku frændi minn.
Sigrún Ólafsdóttir.
Nú er þriðji bróðirinn, Ragnar Hallsson, fallinn í valinn eftir stranga glímu við elli kerlingu. Heimahagarnir urðu hans starfsvettvangur og Hallkelsstaðahlíð varð að glæsibýli.
Þessi myndarlegi og ljúfi frændi varð ein af mínum fyrirmyndum á uppvaxtarárunum. Hann kveikti hjá manni íþróttaáhugann og var sjálfur liðtækur í mörgum greinum frjálsra íþrótta, enda gullaldartími í þeim íþróttum. Hápunktur hvers sumars var héraðsmótið og þar gerðu Snæfellingar garðinn frægan upp úr miðri síðustu öld. Þar sá ég frænda minn spretta úr spori og skila sigri í 400 metra hlaupi með góðum endaspretti.
Með árunum vex skilningur manns á mannlífinu og hvaða eiginleikum fólk býr yfir. Þannig er það með Ragnar frænda og kynni mín af honum. Börn löðuðust sérstaklega að honum og hann náði einstöku sambandi við fjárhópinn og hestasálirnar. Þekkti svipinn á 700 ám og með árunum urðu hestarnir bestu vinirnir. Eitt orð finnst mér lýsa honum best – valmenni.
Það var ekki komið að tómum kofunum hjá Ragnari þegar landsmálin bar á góma. Betra að hafa þá rök fyrir máli sínu, en alltaf var það sanngirni í hverju máli sem honum var umhugað um. Einhverju sinni fóru Þjóðviljinn og Alþýðublaðið að berast með póstinum á nafni Ragnars. Þá var Tíminn skyldulesning á flestum bæjum í sveitum og ég spurði Ragnar, hvers vegna hann væri þá að kaupa önnur blöð? „Ég vil sjá fleiri skoðanir á málunum,“ var svarið.
Ég kveð Ragnar frænda með mikilli virðingu og þakklæti fyrir gömul kynni. Hans nánustu votta ég samúð mína.
Reynir Ingibjartsson
frá Hraunholtum.