Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Icelandair Group hefur ákveðið að hefja söluferli á Icelandair Hotels og fasteignum þeim sem tilheyra hótelrekstri fyrirtækisins. Í tilkynningu frá félaginu segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri að markmiðið sé að selja meirihlutann í félaginu og með því sé ætlunin að skerpa á kjarnastarfsemi fyrirtækisins og fjárfesta frekar í vexti þess á því sviði, í stafrænum lausnum, aukinni sjálfvirkni og nýjum flugvélum. Forsvarsmenn fyrirtækisins munu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hins vegar ekki útiloka að Icelandair Group verði áfram eigandi að minnihluta í félagi utan um hótelreksturinn. Segir Björgólfur í fyrrnefndri tilkynningu að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi fundið fyir miklum áhuga á félaginu að undanförnu, bæði frá innlendum og erlendum aðilum.
Icelandair Hotels er með 23 hótel innan sinna vébanda, þar af 10 sem rekin eru undir nafni Hótels Eddu sem er sumarhótelakeðja. Á þessum hótelum eru 1.937 herbergi, 876 í Reykjavík, 450 á landsbyggðinni ásamt 611 herbergjum á fyrrnefndum Eddu-hótelum. Þá vinnur fyrirtækið einnig að opnun nýs hótels við Austurvöll í samstarfi við Hilton sem stefnt er að því að opna árið 2019.
Ekki er hægt að nálgast nákvæmar upplýsingar niðurgreindar á starfsemi Icelandair Hotels í reikningum Icelandair Group þar sem rekstrartölur þaðan eru tvinnaðar saman við starfsemi Iceland Travel. Samanlagðar tekjur þeirrar starfsemi námu 218,7 milljónum dollara í fyrra, jafnvirði 22,9 milljarða króna. Samkvæmt fyrrnefndri tilkynningu Icelandair Group er ekki stefnt að því að selja starfsemi Iceland Travel. Verður sú starfsemi hluti af kjarnastarfsemi Icelandair Group ásamt ferðaskrifstofunni VITA.
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandair Hotels.