Víkverja fannst ekki gaman að horfa á forkeppni Eurovision að þessu sinni og horfði reyndar bara á aðra þeirra, þá fyrri þegar Ísland tók þátt. Ari stóð sig með sóma en Víkverji var ekki hrifinn af laginu.
Víkverja fannst ekki gaman að horfa á forkeppni Eurovision að þessu sinni og horfði reyndar bara á aðra þeirra, þá fyrri þegar Ísland tók þátt. Ari stóð sig með sóma en Víkverji var ekki hrifinn af laginu. Sviðsetningin hefði líka mátt vera betri því Eurovision er þrátt fyrir allt keppni sem fram fer ekki aðeins á staðnum heldur ekki síður í sjónvarpi og hinar þjóðirnar notfærðu sér miðilinn í mun meira mæli.
Sumt var dýrt eins og átta milljóna kjóll sópransöngkonunnar frá Eistlandi sem sýndi myndir og skipti litum en hann gerði það samt að verkum að atriðið fór ekkert framhjá manni. Annað var mun ódýrara eins og textabrot Ítalanna sem voru sýnd á ýmsum málum. Í Eurovision er nefnilega ekki nóg að vera með fallegan söng heldur verður atriðið sjálft að vera eftirminnilegt á einhvern hátt.
Fjölskyldan sleppti því að horfa á seinna undanúrslitakvöldið og lét nægja að horfa á úrslitin. Þrátt fyrir að þrjú börn séu á heimilinu var áhuginn einna mestur hjá Víkverja sjálfum. Honum finnst gaman að velta fyrir sér mismunandi menningu landa og hvað þeim finnist töff og áhugavert. Stigakeppnin hefur í gegnum tíðina endurspeglað smekk landanna og hefur því verið gaman að fylgjast með henni.
Núna er búið að eyðileggja þessa skemmtun fyrir manni því fulltrúar landanna lesa ekki lengur upp stig fólksins heldur stigin sem dómnefndir landanna gefa.
Misræmið í þessum tveimur stigagjöfum var mikið og sérstaklega áberandi munurinn hjá tveimur lögum sem féllu í kramið hjá fjölskyldunni, framlagi Tékklands og Danmerkur.