Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Borið hefur á því undanfarna mánuði að stöðumælaverðir hafa sektað ökumenn sem lagt hafa á lóðinni Klapparstíg 19. Meira að segja hefur það gerst að eigendur lóðarinnar hafi fengið sektir, þegar þeir hafa lagt þar. Allar sektirnar eru í óþökk eigenda lóðarinnar sem er eignarlóð og hafa þeir kvartað formlega við bílastæðasjóð Reykjavíkur.
Ákvörðun felld úr gildi
Eigendur lóðarinnar hafa lengi átt í samskiptum við Reykjavíkurborg og lagt til ýmsar tillögur um uppbyggingu á lóðinni. Í síðustu umferð lögðu þeir fram, að tillögu borgarinnar, tillögu að deiliskipulagi sem gerði ráð fyrir verndun steinbæjarins og að byggja nokkur lítil hús á lóðinni. Í því fólst að rífa íbúðarhúsið á Veghúsastíg 1 sem dæmt hefur verið ónýtt. Eftir að tillagan hafði verið samþykkt í skipulagsráði og borgarráði tilkynnti formaður skipulagsráðs, Hjálmar Sveinsson, að hann hefði skipt um skoðun og var tillagan felld í borgarstjórn.Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taldi rannsókn málsins og rökstuðningi áfátt og felldi ákvörðun borgarstjórnar úr gildi. Þannig stendur málið.
Stefán S. Guðjónsson, talsmaður eigenda lóðarinnar, bendir á að vinna eigendanna hafi alla tíð gengið út á það að þeir gætu haft eðlilegar tekjur af lóð sinni en ekki fengið vegna afstöðu Reykjavíkurborgar. Því skjóti það skökku við að borgin í gegn um bílastæðasjóð sé farin að hagnýta sér hana.
„Ég er ekki löglærður maður en hef heyrt á það minnst að þetta kynni að flokkast undir nytjastuld,“ segir hann.