Í júní verða steindir gluggar Gerðar Helgadóttur á suðurhlið Kópavogskirkju teknir niður og sendir til viðgerðar í Oidtmann-glerverksmiðjunum í Þýskalandi, sem annaðist gerð þeirra og uppsetningu á sínum tíma. Á meðan verður gert við gler á utanverðri suðurhlið kirkjunnar, sem er mest áveðurs. Steindu gluggarnir verða svo settir aftur upp eftir viðgerð í september. Í sumar verður jafnframt gert við allt rafkerfi kirkjunnar.
Að sögn Sigurðar Arnarsonar, sóknarprests í Kársnessókn, var orðin þörf á að gera við blýið sem tengir einingarnar í gluggunum. Gler í gluggum Gerðar er í raun innra byrðið, en skipt verður alveg um ytra byrðið. Þessi viðgerð og aðrar endurbætur á húsnæði kirkjunnar eru orðnar brýnar og skiptir kostnaður milljónum króna. Ýmsir sjóðir, Kópavogsbær og velunnarar kirkjunnar hafa lagt henni ómetanlegt lið á margvíslegan hátt í þessum stóru verkefnum, að sögn Sigurðar.
Breyting á helgihaldi
Kópavogskirkja var reist 1958-1962 eftir teikningum frá embætti húsameistara ríkisins sem Hörður Bjarnason veitti forstöðu á þeim tíma. Ragnar Emilsson, arkitekt hjá embættinu, vann ásamt húsameistara mikið að teikningu kirkjunnar. Steindir gluggar listakonunnar Gerðar Helgadóttur sem prýða kirkjuna setja mikinn svip á hana og ljá henni yfirbragð helgi, friðar og listrænnar fágunar, segir á heimasíðunni.
Ekki verða guðsþjónustur og messur í kirkjunni á sunnudögum frá júníbyrjun og fram eftir sumri og er bent á helgihald í öðrum kirkjum Kópavogs. Í ágúst og september verða guðsþjónstur og messur á sunnudögum í Safnaðarheimilinu Borgum. aij@mbl.is