HM 2018
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is „Það er alls ekki sjálfsagður hlutur að vera hluti af íslenska landsliðsliðinu sem tekur þátt í HM í Rússlandi. Ég var þess vegna himinkátur þegar ég fékk skilaboð þess efnis að ég væri í HM-hópnum,“ sagði knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson er Morgunblaðið hitti hann að máli fyrir æfingu örfárra leikmanna íslenska landsliðsins sem þegar eru komnir saman til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í Rússlandi upp úr miðjum næsta mánuði.
Albert er yngsti leikmaður íslenska landsliðsins sem tekur þátt í HM. Hann er á 21. ári. „Ég gerði mér ákveðnar vonir um að vera í hópnum en vissi að samkeppnin væri hörð. Þess vegna var helsta hugsun mín í aðdraganda valsins að hugsa vel um sjálfan mig og vera tilbúinn ef kallið kæmi frá Heimi landsliðsþjálfara. Ég vonaði en hafði um leið skilning á að svo kynni að fara að ég yrði að bíta í súra eplið og verða eftir heima. Hópurinn sem Heimir hafði úr velja er fjölmennur og samkeppnin mikil,“ sagði Albert.
Spurður hvernig hann sæi hlutverk sitt innan hópsins í ljósi þess að hann er yngstur og einna óreyndastur þeirra sem valdir voru sagði Albert það vera enn óljóst þar sem hópurinn hefur ekki allur komið saman. „Markmið mitt er fyrst og fremst að hjálpa liðinu til þess að ná fram hagstæðum úrslitum í hverjum leik á HM, sama hvort ég verð í stúkunni, á varamannabekknum eða inni á leikvellinum. Ég mun einfaldlega vanda mig í því hlutverki sem ég fæ, hvert sem það verður,“ sagði Albert.
Þurfti ekki meira en fjóra daga í frí
Albert segist koma vel undirbúinn til æfinga með landsliðinu eftir fjögurra daga frí. Hann segist ekki þurfa á lengra fríi að halda enda sé hann kominn í öfundsverða stöðu, þ.e. að taka þátt í heimsmeistaramóti í knattspyrnu. „Ég vildi ekki vera í fríi núna þegar undirbúningur fyrir HM er að hefjast. Það skemmtilegasta sem ég geri er að leika fótbolta og framundan er þátttaka í HM sem er algjör draumur.“Albert kom í herbúðir hollenska félagsins PSV árið 2015 og fór þá strax að leika með B-liðinu, Jong PSV, í næstefstu deild. Á síðasta ári jókst vegur Alberts þegar hann komst í aðalliðið en PSV varð hollenskur meistari í vor. Hann segist hafa vonast eftir að frami sinn hjá aðalliðinu yrði hraðari en raun hefur orðið á. „Í hreinskilni sagt þá hefði ég viljað fá fleiri tækifæri og fyrr en raun hefur orðið á. Hinsvegar gekk liðinu einstaklega vel á síðasta keppnistímabili. Þess vegna var erfiðara en ella hjá þjálfaranum að gera miklar breytingar á liðinu. Menn leika sér ekki að því að gera breytingar á sigurliði. Ég skil það vel. Þegar titillinn var í höfn í vor þá jukust tækifæri mín með aðalliðinu.“