Í þessum töluðum orðum er ég með fjölskyldunni á leiðinni frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn til Lundar í Svíþjóð að heimsækja Unni Ósk dóttur mína sem eignaðist sína þriðju dóttur 6. maí síðastliðinn. Ég hlakka til að sjá stúlkuna, mitt fjórða barnabarn, og allt þetta segir að ég er gæfumaður,“ segir Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, sem er 58 ára í dag.
Magnús er uppalinn í Leirvogstungu í Mosfellsbæ, sonur Guðmundar Magnússonar og Selmu Bjarnadóttur. „Áhugi á landi og náttúru vaknaði snemma. Eftir stúdentspróf fór ég í landafræði við Háskóla Íslands og þegar námi lauk árið 1983 fékk ég vinnu hjá Landmælingum Íslands. Þar hef ég unnið síðan og hef sinnt mörgum verkefnum, var til dæmis fjórtán sumur í að taka loftmyndir af landinu sem eru mikilvæg mælingagögn í kortagerð. Ég tók svo við starfi forstjóra stofnunarinnar 1999, sem fyrir um 20 árum var flutt upp á Akranes og þar hef ég búið síðan.“
Á Skaganum hefur Magnús tekið þátt í ýmsum félagsstörfum. Sat eitt kjörtímabil í bæjarstjórn og er í dag formaður knattspyrnufélags ÍA. „Við ætlum okkur stóra hluti í fótboltanum. Meistaraflokkur karla spilar í dag í 1. deildinni en við ætlum okkur strax eftir þetta sumar aftur upp í deild þeirra bestu. Annað kemur ekki til greina, og sama gildir um stelpurnar í meistaraflokki sem eru líka í 1. deild,“ segir Magnús sem á tvö uppkomin börn, fyrrnefnda Unni Ósk og Daníel. Eiginkona hans er Guðrún Guðbjarnadóttir grunnskólakennari sem á þrjú börn, Sólrúnu, Eyrúnu og Guðbjarna. sbs@mbl.is