Helgi Jón Magnússon var fæddur í Vestmannaeyjum 22. febrúar 1934.
Hann andaðist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 10. maí sl.
Foreldrar hans voru hjónin Magnús Magnússon húsasmíðameistari, f. 12. september 1905, frá Vesturhúsum í Vestmannaeyjum, og Kristín Ásmundsdóttir húsfreyja, f. 24. ágúst 1908, frá Seyðisfirði.
Systur Helga voru Emma Ása, f. 1931, d. 1932, Ása Emma, f. 1939, d. 1986 og Petra, f. 1945, hún býr í Vestmannaeyjum.
Helgi kvæntist Unni Tómasdóttur hússtjórnarkennara, f. 29. mars 1943 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Ólöf K. Gunnarsdóttir, f. 1911 í Marteinstungu í Holtum, og Tómas Jochumsson, f. 1907 í Reykjavík, ættaður frá Móum á Kjalarnesi.
Börn Helga og Unnar eru: 1) Ólöf, f. 1965, gift Kristjáni L. Möller, f. 1959, þau eru búsett í Vestmannaeyjum og eiga þrjú börn: Helgu Björk, William Thomas og Magnús Örn. 2) Tómas, f. 1972, giftur Jenny Helgason, f. 1972, þau eru búsett í Hollandi og eiga þrjú börn: Ívar, Söru Kristínu og Anton Helga. 3) Kristinn, f. 1975, giftur Þórhildi Rún Guðmundsdóttur, f. 1975, þau eru búsett í Kópavogi og eiga þrjú börn: Ágúst Unnar, Söndru Diljá og Bjarka Rúnar.
Helgi lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og síðar prófi frá Iðnskólanum í Vestmannaeyjum samhliða iðnnámi í húsasmíði hjá Smið hf. í Vestmannaeyjum. Hann öðlaðist síðan meistararéttindi í húsasmíði árið 1967. Hann starfaði í Smið með föður sínum fram að Eyjagosi en fjölskyldan flutti þá upp á land og bjó þar í eitt ár. Helgi fann sig ekki vel á fastalandinu svo það varð úr að hjónin fluttu heim til Eyja í janúar 1974. Þá var hafist handa við að byggja nýtt hús að Bröttugötu 29, því húsið að Ásavegi 29 var grafið og soðið í ösku. Flutt var inn í nýja húsið í apríl 1975. Þegar heim kom fór hann fljótlega að starfa sjálfstætt, tók hann að sér ýmiss konar verkefni, m.a. byggingu húsa ásamt ýmsu öðru. Um 1990 bauðst honum að gerast smiður í Vinnslustöð Vestmannaeyja og vann hann þar til starfsloka en hann hætti að vinna 72 ára gamall. Síðustu árin hefur hann föndrað við að smíða og renna ýmsa smáhluti. Seinni árin hafa hjónin mikið stundað ferðalög bæði innan lands og utan.
Helgi Jón verður jarðsunginn frá Landakirkju í dag, 19. maí, og hefst athöfnin kl. 13.
Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku pabbi minn.
Mér finnst ég varla heill né hálfur maður
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður
verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verðað segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur með blómunum.
Er rökkvar ráðið stjörnumál.
Gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja sál.
Horfið er nú sumarið og sólin,
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin;
nú einn ég sit um vetrarkvöld.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Minning þín er ljós í lífi okkar.
Ólöf.
Í Hollandi tölum við um ‘praters' og ‘doeners', þá sem tala um hlutina og þá sem gera hlutina, Helgi Magnússon var augljóslega sá síðarnefndi, enda var hann ekki lengi veikur, dreif það af eins og aðra hluti í sínu lífi. Það var af sömu ástæðum kannski ekki mikið um djúpstæð samtöl á okkar síðustu samverustundum en samt voru nokkrir gamlir og minnisstæðir atburðir rifjaðir upp.
Á mínum yngri árum var farið á fjörur og göngur á laugardags- og sunnudagsmorgnum með pabba. Fjöruferðirnar voru skemmtilegar, tína hringi og hlaupa um á stóru steinunum, hver yrði fyrstur. Ferðin þegar við fórum út á nesið og aldan hreif okkur næstum með sér og við rétt sluppum, hundblautir, samkomulag varð um að segja mömmu ekki neitt.
Þó að Álseyjarferðirnar hafi ekki verið margar eru þær eftirminnilegar. Þegar pabbi fór niður í bergið að tína egg og lét mig halda í bandið, ég var 6 ára! Nú svo að fá að hjálpa Ella í Ólafshúsum við að mála kofann og heyra hann blóta öllu í sand og ösku þegar hann steig í málningarfötuna.
Vinnusemin í pabba var alveg ótrúleg og hvað hann var fljótur að hlutunum, eitthvað sem maður getur tekið sér til fyrirmyndar. Áður fyrr fór það stundum í taugarnar á manni þegar búið var að redda vinnu fyrir mann helst áður en skóla lauk, það átti ekki að vera neitt að hanga heima og gera ekki neitt! Ég man meira að segja eftir mér komnum upp á þök með pabba 6 ára gamall að negla þakpappa, svo fóru margir metrarnir af gluggaefni sem voru heflaðir í bílskúrnum á Bröttugötunni.
Þó svo að samverustundirnar hafi ekki verið nógu margar eftir að ég fluttist til Hollands voru þær ávallt skemmtilegar og þið voruð dugleg við að heimsækja okkur. Samskiptin við barnabörnin voru ávallt í góðu og kom málaskilningur ekki að sök, þó svo að ég hafi verið skammaður fyrir að kenna krökkunum ekki meiri íslensku, ég reyni að bæta úr því.
Við eigum óteljandi fleiri minningar sem eru mér ofarlega í huga, of margar til að nefna, við geymum þær í hjartanu á góðum stað og þökkum fyrir okkur.
Guð blessi minningu þína,
Tómas Helgason.
Pabbi var alltaf boðinn og búinn að koma og aðstoða við verklegar framkvæmdir. Ég minnist t.d. þegar við Þórhildur keyptum fyrstu íbúðina okkar í Kópavoginum 2001. Þetta var um það leyti þegar fyrsta barnið okkar fæddist, hann Ágúst Unnar, og lá þá nokkuð á að standsetja íbúðina og klára hluti eins og parketlögn, flísalagnir og fleira. Ekki stóð þá á pabba þá að koma og taka til hendinni þannig að litla fjölskyldan gæti flutt inn.
Aðrar góðar minningar sem koma upp í hugann og hægt er að ylja sér við eru til dæmis stundirnar sem Ágúst Unnar og Sandra Diljá fengu með afa sínum þegar dvalið var á Bröttugötunni. Þar var ýmislegt brallað. Pabbi vildi t.d. meina að það hafi verið hann sem kenndi Ágústi Unnari að spila fótbolta. Þar var líka spilað, farið í fjöru, gengið á Helgafell og margt fleira. Það sem Bjarka Rúnari fannst líka gaman var þegar hann fékk að sitja í fanginu á afa og keyra stóra jeppann, snúa stýrinu og ýta á alla takkana. Það var stuð!
Ég minnist líka með hlýju allra stundanna þegar við Þórhildur byggðum húsið okkar í Austurkór. Þar mætti pabbi, kominn vel á áttræðisaldur og stóð langa vinnudaga og aðstoðaði okkur við hin ýmsu verk ásamt því að deila verkviti sínu. Oft á tíðum var ég mun þreyttari eftir þessa daga en hann, en pabbi var lítið fyrir að taka langar pásur eða matartíma. Það varð að drífa hlutina áfram! Það má líka segja að pabbi hafi yfirleitt verið vakandi og sofandi yfir þeim hlutum þegar eitthvað stóð til og hringdi hann oft og iðulega til að heyra hvernig hlutirnir væru að ganga fyrir sig og hvort hann gæti lagt eitthvað af mörkum. Eftir situr allur sá fróðleikur og verkvit sem pabbi hefur kennt mér, fyrir það er ég óendanlega þakklátur.
Pabbi kenndi mér líka hve umhirða bílsins skiptir miklu máli enda keyrði hann ávallt um á glansandi hreinum bíl. Á höfuðborgarsvæðinu getur oft verið krefjandi verkefni að vera á alltaf á hreinum bíl en alltaf hugsa ég til pabba þegar bíllinn minn er orðinn mjög óhreinn, að þetta gangi nú ekki, pabbi mætti ekki sjá bílinn minn svona útlítandi.
Elsku pabbi minn, eftir að hafa séð þig berjast við illvígan sjúkdóm síðustu vikur þá veit ég að þú ert kominn á góðan og friðsælan stað núna með öllu fólkinu þínu. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið mér og kennt. Hvíl í friði, elsku pabbi.
Ég kveð þig, minn faðir, nú komin er stund
sem kveið ég svo fyrir að lifa.
En þú ert nú horfinn á feðranna fund
með fögnuði tekið á himneskri grund.
Í söknuði sit ég og skrifa.
Þín lundin var sköpuð af gimsteinagerð
og gæska úr hjartanu sprottin.
Mig langar að þakka þér farsæla ferð
með friðsælli gleði ég kveðja þig verð.
Nú geymir þig dýrðlegur Drottinn.
(Birgitta H. Halldórsdóttir)
Kristinn.
Innréttingar, parketlögn, gólfefni á svalirnar og fleira og fleira. Þú varst þá betri en enginn. Ég á svo margar góðar og ómetanlegar minningar um þig og alltaf stendur upp úr þegar við komum til ykkar ömmu og skreyttum með ykkur jólatréð. Ég þakka Guði almáttugum fyrir að hafa átt þig sem AFA. Ég þakka þér, afi minn, fyrir að hafa verið til
og fyrir að hafa verið til fyrir okkur öll. Þín verður sárt saknað
Hvíldu í friði, elsku afi minn.
Helga Björk.
Elsku afi. Þú sannaðir með hverjum deginum að aldur er bara tala með því að labba upp á Heimaklett, hjóla í kringum eyjuna og smíða hin fallegustu listaverk. Þú ert sannkölluð hetja í mínum augum og ég hef alltaf litið upp til þín og mun alltaf gera.
Fagur fiskur í sjó,
brettist upp á halanum
með rauða kúlu á maganum.
Vanda, banda,
gættu þinna handa.
Vingur, slingur,
vara þína fingur.
Fetta, bretta,
svo skal högg á hendi detta.
(Höfundur ókunnur)
Ágúst Unnar, Sandra Diljá
og Bjarki Rúnar.
Afi var handlaginn og elskaði að smíða hluti. Hann safnaði ýmsu mögnuðu tréverki og þannig man ég sérstaklega eftir taflmönnunum hans sem voru engir venjulegir taflmenn heldur listaverk úr viði, ég elskaði að leika mér með þá þegar ég var lítill og tefla þegar litli bróðir minn nennti að tefla við mig. Í íbúðinni minni finnast ýmsir viðargripir sem afi hafði smíðað, lítill leikfangabíll og fugl en mest þykir mér þó vænt um lampann sem hann smíðaði. „Ljóta“ lampann sem ekkert af börnunum hans vildi taka við, en ég gerði glaðfúslega enda fannst mér lampinn mjög flottur. En mest þykir mér þó vænt um persónulegt gildi lampans, enda var afi mjög glaður að ég vildi taka við lampanum og er það minning sem ég mun halda þétt að mér um aldur og ævi!
Einn af mörgum erfiðleikum sem ég þurfti að glíma við, við að vera heyrnarskertur, er þegar heyrnin hjá afa byrjaði að dala líka. Samræðurnar síðustu ár voru erfiðari fyrir okkur báða, en afi átti alltaf góða sögu að segja og líkaði honum sérstaklega að tala við Jenný eiginkonu mína en ég held að hann hafi verið stoltastur af því afreki mínu að hafa náð mér í svona myndarlega konu. Ég get ímyndað mér að hann hafi talið að fyrst ég gat það þá færi ég leikandi í gegnum restina af lífinu og þær áskoranir sem það hefur að bjóða.
Ég er mjög þakklátur fyrir samfylgdina, elsku afi minn, og þá fyrirmynd sem þú hefur gefið mér og hvernig maður ég vil vera. Að lokum vil ég rifja upp þá sterkustu minningu mína sem ég hef af afa og það er hversu barngóður hann var, það situr alltaf fast í mér, hvort sem það var Magnús, Ágúst, Sandra, Bjarki, Ívar, Sara eða Anton. Þá sat afi með þeim og fór með puttavísuna skemmtilegu og er ég ekki frá því að ég muni sjálfur eftir mér í fanginu á honum þegar hann raulaði og taldi á puttunum mínum:
Þumalputti: þessi datt í sjóinn
Vísifingur: þessi dró hann upp
Langatöng: þessi bar hann heim
Baugfingur: þessi horfði á
og litliputti spillimann kjaftaði öllu frá.
William Thomas.
Ég vil þakka Helga fyrir dýrmæta vináttu í gegnum árin og sendi Unni, börnum og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Megi góður Guð gefa ykkur styrk í sorginni.
Guðjón á Látrum.
Við Helgi höfum verið nánir vinir allt frá 5 ára aldri en ég man eins og það hafi gerst í gær hvenær og hvar við Helgi hittumst fyrst. Það var á hólnum austan við Búastaði, þar sem föðursystir mín, Lovísa frænka, bjó með sex börnum sínum, og við vorum að bera út Fylki. Allan barnaskóla og gagnfræðaskóla sátum við saman og vorum sem bestu bræður. Skólasystkini frá þessum árum voru okkur mjög kær. Með árunum hefur fækkað í hópnum og margir hafa farið yfir móðuna miklu sem bíður okkar allra.
Lundaveiðar, eggjataka og klifur voru aðaláhugamál okkar Helga og jafnaldra í Vestmannaeyjum enda aldir upp við það frá barnæsku. Höfnin, tíðar heimsóknir íslenskra og erlendra skipa fóru ekki fram hjá okkur. Helgi og ég fórum saman í úteyjar til lundaveiða og eggjatöku snemma á vorin, en Helgi var Álseyingur og gjörþekkti þá eyju en ég Bjarnareyingur. Þannig liðu dagarnir einn af öðrum. Helgi hafði áhuga á sjómennsku, en móðir hans og amma töldu að góður smiður og handverksmaður væri öruggari í lífsbaráttu þeirra tíma, en þess má geta að margir mestu fiskimenn Vestmannaeyja á fyrri hluta 20. aldar voru af Vesturhúsaætt.
Helgi valdi hið skapandi starf trésmíða og varð mjög farsæll í þeim störfum, vandvirkur og afkastamikill. Hann varð því eftirsóttur og hefði getað skapað sér starfsvettvang hvar sem var, en trúr sinni heimabyggð haslaði hann sér völl í Vestmannaeyjum og stóð fyrir byggingu húsa sem bera vandvirkni hans og samviskusemi fagurt vitni. Er í minnum haft innan fjölskyldunnar er Helgi sá um að klæða íbúðarhúsið að Hrafnabjörgum í Arnarfirði, æskuheimili Aniku eiginkonu minnar.
Eftir gagnfræðaskóla skildu leiðir, Helgi fór í iðnskólann í Eyjum og valdi smíðar en ég fór í menntaskóla og síðan til sjóliðsforingjanáms í Kaupmannahöfn. Ávallt héldum við þó sambandi með bréfaskriftum. Þegar við hjónin fluttum heim til Eyja urðu Helgi og Unnur okkar nánasta vinafólk. Eftir að við fluttum í bæinn eftir eldgosið 1973 héldum við sem fyrr sambandi og ávallt komu þau í heimsókn til okkar hjóna er þau dvöldu í Reykjavík. Áttum við margar góðar samverustundir.
Við Anika og fjölskyldan öll sendum Unni og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Guðjón Ármann Eyjólfsson.
Helgi Magnússon var einn besti smiður sem ég hef unnið með og fljótur að sjá lausnir á hverju máli. Það var því gott fyrir okkur strákanna í h/f Smið að hafa Helga með í liði. Hann rak okkur áfram, en var samt mjög skemmtilegur vinnufélagi.
Hann var Týrari, sjálfstæðismaður – já, hvort hann var. Einnig var hann Álseyingur og veiddi lunda á hverju sumri meðan sú íþrótt var og hét.
Vinskapur okkar hélst alltaf þótt við værum hvor hjá sínum vinnuveitandanum og svo kom Gosið. Helgi byggði þá íbúðir í Reykjavík með félögum sínum. En hann kom heim aftur og vann við að klára sjúkrahúsið í Eyjum alveg þar til það var tekið í notkun.
Árið 1974 var fyrirtæki mínu falið að taka við smíði Safnahúss í Eyjum, sem þá var ekki fokhelt. Helgi tók að sér að sjá um verkið fyrir fyrirtækið og stjórnaði hann allri vinnu á byggingarstað af mikilli fagmennsku. Hann kom með góða menn með sér og á næstu fimm árum skiluðu þeir af sér hverri hæðinni á fætur annarri, 1977 bókasafni, 1978 byggðasafni sem í dag er Sagnheimar og að lokum skjalasafni. Húsið er góður minnisvarði um fagmennsku Helga.
Helgi var sannur Eyjapeyi sem ólst upp og starfaði alla tíð í nánu sambandi við athafnalíf Eyjamanna og hafði hann alla tíð orð á sér fyrir dugnað og ósérhlífni.
Hans er ljúft að minnast og viljum við Hrafnhildur því senda Unni og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.
Garðar Björgvinsson.
Nú fóru mér að berast bréf frá henni. Hvernig henni tókst til með kennsluna, hvernig lífið var í Eyjum o.s.frv. en svo bréf um miðjan vetur. ,,ég er búin að kynnast ungum manni. Hann heitir Helgi frá Vesturhúsum. Vandaður og góður, smiður“. Þessi frábæra vinkona mín átti svo sannarlega skilið að eignast góðan og traustan lífsförunaut.
Svo urðu bréfin fleiri. Helgi að kaupa lóð, fjölskyldan að stækka og áður en ég vissi af var komið hús og flutt inn. Mér var boðið í heimsókn.
Í dyrunum á Ásaveginum tók á móti mér ungur hraustlegur maður sem tók þéttingsfast í hönd mína, bauð mig velkomna. Glæsilegt hús hannað og byggt með hans eigin höndum. Mér varð strax ljóst að Helgi hafði lagt í þetta fallega hús alla ást sína og hagleik.
En gleðin með nýja húsið stóð ekki lengi. Um miðja nótt 1973 sló bjarma á himininn yfir Helgafelli. Það var farið að gjósa. Fumlaust tóku hjónin saman fatnað, einhverja muni, klæddu börnin og hröðuðu sér ofan á bryggju.
Þessa nótt litu þau í síðasta sinn sitt glæsilega hús.
Lítill drengur í fangi, stúlkubarn við hönd, kvíðin kona og ungur maður á flótta undan eldgosi. Þau fengu inni hjá móður Unnar á Brávallagötunni, síðar íbúð í Hraunbænum. Ekkert vonleysi, engin uppgjöf.
Við flytjum fljótlega aftur til Eyja, sagði hann. Lífsbaráttan hafði hert Eyjafólkið svo að jafnvel eldgos tók ekki frá því staðfestuna.
Ungur lá hann á bjargbrúninni í Álsey, óhræddur háfandi lunda. Ungur þræddi hann þverhnípið, ungur valdi hann sér smíðar til atvinnu. Handverkið hreinasta snilld.
Uppi á landi var hann strax kominn í öflugt gengi smiða. En til Eyja varð hann samt að komast til að bjarga innbúi, hurðum og fleiru áður en askan kaffærði húsið. Ég reisi bara annað, sagði hann.
24. september sama ár skall á ofsaveður yfir landið. Þök rifnuðu af húsum. Síminn hringdi, neyðarhringing. Þakdúkur á nýbyggðu húsi vinar okkar fokinn, úrhelli og miklar skemmdir í vændum. Hjónin erlendis. Náð í Helga og flokkinn hans. Fumlaust og hratt unnu þeir við að festa niður dúk í brjáluðu veðri. Húsinu bjargað.
Þetta var Helgi, áræðinn, óhræddur, útsjónarsamur og sterkur.
Svo loksins goslok og nýtt hús byggt á Bröttugötu. Nýtt upphaf, og aftur kom ég í heimsókn. Aftur sama þétta handartakið í dyrunum. Velkomin.
Svo hafa árin liðið við leik og störf og aldurinn sótt að. Ævikvöldinu skyldi eytt í nýju raðhúsi til að létta undir með Unni sinni sem hafði gengið gegnum erfið veikindi en þá var barið harkalega að dyrum. Nú greindist Helgi með illvígan sjúkdóm. Nú varð þessi sterki maður að beygja sig.
Já, svo sannarlega hafa Eyjarnar misst einn af sínum traustustu drengjum.
Í friði Guðs hvíli nú kær vinur í fallega kirkjugarðinum í Vestmannaeyjum.
Dröfn og Arthur Farestveit.
Elsku afi,
þó samverustundirnar hafi kannski ekki verið nógu margar eru minningarnar þeim mun meiri og sumar ógleymanlegar.
Fagur, fagur fiskur í sjó,
brettist upp á halanum
með rauða kúlu á maganum.
Vanda, banda,
gættu þinna handa.
Vingur, slingur,
vara þína fingur.
Fetta, bretta,
svo skal högg á hendi detta.
Takk fyrir, elsku afi, við elskum þig öll,
P.S.
Samanbrotnu bátarnir og hattarnir klikka aldrei.
Ívar Tómasson,
Sara Kristín Helgason og
Anton Helgi Helgason.
Með klökkum huga þig ég kveð,
ég þakka allt sem liðið er,
Guð okkur verndi og blessi.
Það er sárt að kveðjast við
dauðans dyr.
En svona er lífið og dauðinn ei spyr,
hvort finnist oss rétti tíminn til,
dauðinn hann engum sleppir.
(Ingimar Guðmundsson.)
Þórhildur Rún.