Að minnsta kosti tíu manns biðu bana í skotárás í framhaldsskóla í bænum Santa Fe í Texas í gær. Lögregluforingi á staðnum sagði að níu nemendur skólans og kennari hefðu látið lífið í skotárásinni. Nokkrir særðust, þeirra á meðal tveir lögreglumenn. Rörsprengjur fundust einnig á staðnum.
Meintur árásarmaður, táningspiltur, var handtekinn og lögreglan yfirheyrði annan ungling vegna árásarinnar.
Hermt er að árásarmaðurinn hafi hleypt af byssu í skólanum klukkan hálf átta um morguninn að staðartíma þegar kennsla var að hefjast.
Þetta var 22. skotárásin í bandarískum skóla á árinu og sú þriðja á átta dögum. Starfsmaður skóla í Illinois skaut á fyrrverandi nemanda sem hleypti af byssu nálægt hópi nema sem voru á útskriftaræfingu á miðvikudaginn var. Byssumaðurinn særðist og hefur verið ákærður fyrir skotárás. Fjórtán ára piltur hóf skothríð í skóla í bænum Palmdale í Kaliforníu á föstudaginn var og einn nemandi særðist. Árásarmaðurinn var hnepptur í varðhald og ákærður fyrir morðtilraun.
Sautján manns biðu bana í mannskæðustu skotárás ársins sem var gerð í framhaldsskóla í Flórída 14. febrúar. Hún kynti undir umræðunni í Bandaríkjunum um hvort bregðast ætti við tíðum skotárásum í landinu með því að lögfesta nýjar takmarkanir á byssueign. Donald Trump Bandaríkjaforseti boðaði að kennarar og aðrir starfsmenn skóla yrðu þjálfaðir og vopnaðir í því skyni að koma í veg fyrir fjöldamorð en sú lausn hefur mælst mjög misjafnlega fyrir.