[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samstillt konungsfjölskylda hefði fyrir löngu átt að vera búin að grípa í taumana

Það er ótrúlegt að þarna sé fundin fjölskylda með meiri vandamál í eftirdragi en breska konungsfjölskyldan sjálf“ sagði álitsgjafi á Sky News í vikunni í daglegum kvöldþætti stöðvarinnar þar sem farið er yfir fréttamál dagsins. Vísaði hann til fjölskyldu Meghan Markel, leikkonunnar bandarísku sem senn gengur að eiga Harry Bretaprins. Eins og frægt er orðið hafa fjölskyldumeðlimir Markel ekki látið lítið fyrir sér fara í aðdraganda brúðkaupsins.

Systkini hennar hafa haft sig þar helst í frammi með svívirðingar en faðir hennar datt óvænt í sviðsljósið þegar hann varð uppvís að því að þiggja fé fyrir að leyfa ljósmyndurum að mynda sig við að máta föt fyrir brúðkaupið. Í kjölfarið fékk hann hjartaáfall, sem er rakið til andlegs áfalls og mun ekki mæta.

Ég get ekki annað en verið ósammála álitsgjafa Sky sjónvarpsstöðvarinnar. Ef einhver fjölskylda hefði átt að vera til staðar, leysa vandamálin, sýna virkni og að þau kunna að taka á erfiðum málum er það sú breska í höllinni. Samstillt konungsfjölskylda hefði fyrir löngu átt að vera búin að grípa í taumana og til dæmis leiðbeina föður Markle, hlédrægum manni sem kann lítt á fjölmiðla, og vildi losna við papparassana með því að bjóða þeim myndatöku svo hann gæti svo fengið að vera í friði.

Hvar hefur höllin verið meðan systkini Meghan Markle hamast í henni og af hverju sat Thomas Markle ekki bara í góðu yfirlæti á spjalli við Vilhjálm verðandi tengdason og Elísabetu drottningu í 2-3 vikur fyrir brúðkaupið í stað þess að hanga í Mexíkó fram á síðustu stundu. Hann hefði þá getað fengið að vera í friði fyrir því áreiti sem vitað var að myndi fylgja þessum síðustu vikum fyrir brúðkaupið.

Konungsfjölskyldan virðist hafa myndað góð tengsl við Katrínu hertogaynju en aðrar tengdadætur hennar hafa þurft að ganga grýttan veg. Markle virðist ætla að bætast á þann lista en hún er ekki einu sinni enn formlega komin í fjölskylduna. Bara gangan að altarinu er stórgrýtt. Það er vonandi að ástin dugi sem vopn á ruglið því parið virðist að minnsta kosti eiga nóg af henni.