Páll Pétursson fæddist 21. maí 1940 á Steini, Reykjaströnd í Skagafirði. Hann lést 7. maí. 2018 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi.
Foreldrar hans voru Pétur Lárusson, f. 23. mars. 1892, d. 4. maí 1986, bóndi frá Skarði, Skarðshreppi í Skagafirði, og Kristín Danivalsdóttir f. 3. maí. 1905, d. 9. nóv. 1997 húsfreyja frá Litla Vatnsskarði í Laxárdal, A-Húnavatnssýslu. Systkini Páls eru Hilmar Pétursson, f. 11. september. 1926, Jóhann Pétursson, f. 26. apríl. 1928, Kristján Pétursson, f. 17. maí. 1930, d. 4. janúar. 2011, og Unnur Pétursdóttir, f. 9. apríl. 1943. Páll kvæntist Höllu Njarðvík Gunnarsdóttur, f. 20. september. 1947, d. 3. ágúst. 2014 og eignuðust þau 1) Tinnu, f. 13. desember. 1972, gift John Marshall. Börn þeirra eru Brynja Helena f. 3. ágúst. 2002, og Kaja Alexandra, f. 23. ágúst. 2004. 2) Heba f. 11. júlí. 1975.
Páll lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1960 og prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands. Þá hélt hann til náms í fiskiðnfræði í Kiel og Hannover í Þýskalandi og lauk þaðan prófi 1967. Páll starfaði hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins í Reykjavík í nokkur ár og síðan hjá Meitlinum í Þorlákshöfn. Þaðan lá leið fjölskyldunnar til Kanada þar sem Páll vann hjá Fishery Products í sex ár. Í kjölfarið flutti fjölskyldan til Bandaríkjanna. Þar vann Páll hjá Coastal Fisheries í Massachusetts um hríð uns hann réðst til Icelandic USA í Maryland þar sem hann vann sem gæðastjóri þar til hann lét af störfum.
Útför Páls fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 19. maí 2018, klukkan 14.
Elsku pabbi og afi.
Það sem kemur fyrst í hugann, þegar við hugsum um þig, er sú mikla væntumþykja sem þú sýndir okkur. Það var besta gjöfin til okkar. Það er ekki hægt að hugsa sér betri pabba og afa en þig.
Þú fluttir til Kaliforníu á eftir okkur John til að vera nálægt barnabörnunum þínum. Þú studdir okkur í blíðu og stríðu. Þú varst alltaf kletturinn í lífi mínu og kenndir mér að vera sterk og bjartsýn á erfiðustu tímum lífs míns. Þú hjálpaðir mér að verða sú þrautseiga kona sem ég er í dag og kenndir mér að vera góð móðir. Þú sagðir alltaf að ég gæti komist eins langt í lífinu og ég ætlaði mér. Þegar ég kynnti þig fyrir manninum, sem ég vildi giftast, bauðstu hann velkominn í fjölskylduna og sýndir honum alla þá væntumþykju eins og hann væri þinn eigin sonur.
Við munum alltaf minnast þín og gleðjumst að nú ertu aftur með mömmu, Kidda frænda og foreldrum þínum. Undanfarin ár, eftir að þú greindist með Alzheimer sjúkdóminn, hafa verið þér og fjölskyldunni erfið.
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera með þér núna síðustu vikuna í apríl. Ég mun aldrei gleyma brosinu þínu þegar ég hljóp með þig í hjólastólnum yfir bílastæðið og spurði hvort þetta væri gaman og þú sagðir, gerðu þetta aftur. Þú kunnir að gleðjast alveg til hins síðasta.
Við minnumst allra þeirra skemmtilegu stunda, sem við áttum saman, hvað þú hafðir gaman að dansa, hlæja og faðma okkur. Við kveðjum þig með trega, elsku pabbi og afi. Þú mun ætíð lifa í hjörtum okkar.
Tinna, Brynja og Kaja.
Kær kveðja, þar til við hittumst aftur, þinn tengdasonur,
John Marshall.
Hér minnist ég æskuára okkar Palla. Við vorum langyngst fimm Steinssystkina á Reykjaströnd. Fjölskyldan flutti úr sveitinni og settist að í Keflavík, þegar Palli var sex ára og ég þriggja ára. Ég man ekkert eftir mér á Steini, en var sagt að Palli hafi snemma farið að líta eftir mér og hafi eitt sinn bjargað mér úr lífsháska þar sem ég var að sökkva ofaní dý. Eftir að við fluttum á mölina, þótti Palla ég heldur erfið í taumi og hinn samviskusami stóri bróðir átti fullt í fangi með mig í umferðinni, sagði oft „hún verður drepin“, þegar ég óð út á götuna. Honum tókst þó að halda lífinu í stelpunni og við tóku eftirstríðsárin með amerískri hersetu og miklum uppgangi í Keflavík. Áhyggjulausir krakkarnir í bænum létu hersetuna lítið á sig fá og byggðu sinn ævintýraheim í hálfbyggðum húsum og moldarhaugum. Þá voru ekki sjónvörp eða snjallsímar til að freista barnanna. Á sumrin var hamast í leikjum og kofabyggingum frá morgni til miðnættis. Ég hugsaði ekki út í það þá að eflaust hefur verið pirrandi fyrir Palla að hafa þetta stelpuskott í eftirdragi, þegar mikilvæg verkefni voru í gangi með vinunum. Hann var ekki einu sinni laus við mig þegar hann var sendur í sveit í Langadal, ég var send með honum. Nálægðin við dýrin og náttúruna í sveitinni reyndist dýrmætt veganesti fyrir okkur bæði. Ég kveð minn elskulega bróður með söknuði og þakklæti fyrir allt em hann gerði fyrir mig.
Við Snorri og fjölskyldan okkar sendum Hebu,Tinnu, John og dætrunum Brynju og Kaju innilegar samúðarkveðjur.
Unnur.
Síðan líða árin, ég fluttist, ásamt fjölskyldu minni, til Bandaríkjanna þar sem við hjónin fórum til náms. Þá hafði Palli ásamt eiginkonu sinni Höllu og dætrum þeirra Tinnu og Hebu búið þar um nokkurra ára skeið. Palli aðstoðaði okkur námsmennina með fyrstu skrefin og hjálpaði m.a. við búslóðaflutninga. Samskipti og heimsóknir á milli fjölskyldnanna voru nokkuð tíð á þeim tíma sem við bjuggum í Bandaríkjunum. Palli var í fiskbransanum og við fengum reglulega að njóta þess að fá góðan íslenskan fisk sem var aldeilis gott mótvægi við ameríska matinn. Áfram líður tíminn, ég og fjölskylda mín fluttum aftur heim til Íslands. Þegar Palli var staddur á landinu vegna vinnu sinnar kom hann oft í heimsókn og þá rifjuðum við gjarnan upp gamla tíma.
Fyrir allnokkrum árum greindist Palli með Alzheimer og smám saman varð hann ósjálfbjarga eins og títt er um þá sem sjúkdóminn fá. Árið 2014 lést Halla eiginkona Páls og eftir það hallaði enn frekar undan fæti. Dætur Páls voru stoð hans og stytta í veikindunum. Megi guð vera með Tinnu, Hebu, John, Brynju og Kaju sem kveðja nú góðan vin, föður, tengdaföður og afa. Hjarta mitt er fullt af þakklæti fyrir að hafa þekkt Palla og notið frændsemi hans og vináttu.
Vilhjálmur Kristjánsson.
Páll, eða Palli í okkar hópi, vann alla tíð ötullega að því að halda uppi orðstír íslenska fisksins á erlendum mörkuðum og þá ekki síst í Bandaríkjunum. Þar átti hann mikinn þátt í að efla og viðhalda vörumerkinu Icelandic®, en Icelandic® var nýlega gefið íslensku þjóðinni til varðveislu og notkunar fyrir íslenskar vörur.
Palli var ráðinn til Coldwater Seafood Corporation til að framfylgja því að gæði afurða fyrirtækisins stæðust væntingar kröfuhörðustu neytenda í Norður-Ameríku. Hlutverkið var að gæta þess að það sem færi fyrir kröfuharðan almenning væri það besta, sem fáanlegt er í sjávarafurðum, og að sjálfsögðu varð það að koma frá Íslandi.
Sem fulltrúi fyrirtækisins gagnvart íslenskum framleiðendum, bæði frystihúsum og togurum, var hann með stöðugum áminningum og leiðbeiningum lykilmaður í því að gera ICELANDIC® að því vörumerki sem naut mests álits og virðingar fyrir sjávarafurða í Vesturheimi.
Á níunda áratugnum hóf Coldwater að halda námskeið fyrir starfsfólk sitt og umboðsmenn fyrirtækisins á Bandaríkjamarkaði. Palli sá um kennslu á þeim þætti sem snéri að fiskflökum. Samtals sóttu yfir 500 sölumenn þessi námskeið. Tilgangurinn var bæði að tryggja að sölufólkið vissi hvað lægi að baki framleiðslunni og einnig og ekki síður að ICELANDIC® væri ávallt efst í huga þegar sölufólk fór í heimsóknir til veitingahúsa og stofnana að selja einstaka gæðamatvöru. Fiskurinn okkar átti að vera fyrstur uppúr töskunni og á undan öðrum vörum. Hluti Palla í námskeiðinu fékk alltaf besta mat og einkunn nemenda. Hann sýndi sölufólkinu bestu vöruna með sínum krafti og sannfæringu og þau veittu honum bestu viðurkenninguna fyrir námskeiðið. Palli var mjög félagslyndur og alltaf hrókur alls fagnaðar, hvort heldur var í leik eða starfi.
Páll Pétursson var gæðamaður, og þannig voru gæði honum ávallt efst í huga.
Við minnumst öll Palla með söknuði og hlýju og sendum fjölskyldu hans okkar samúðarkveðjur.
Magnús Gústafsson, Jón Friðjónsson,
Pétur Másson, Bud Jones, Rick Gordon og
samstarfsfólk hjá Coldwater Seafood í Bandaríkjunum.