Í nýútkomnu vorhefti Skírnis er grein eftir mig um lestur af ólíkum miðlum. Um er að ræða niðurstöður lítillar rannsóknar sem unnin var sem framlag til samstarfsverkefnisins e-read á vegum ESB.
Rannsóknin mælir lestrarástundun af pappír og skjá. Það er gert með megindlegri rannsókn meðal Íslendinga á aldrinum 18-90 ára og eru 5 tegundir lesefnis mældar: (i) fréttir, (ii) bækur aðrar en skólabækur, (iii) skólabækur og fræðsluefni, (iv) almennar upplýsingar og auglýsingar og (v) lestur vegna samskipta. Skoðað er samband lestrar af ólíkum miðlum við fimm lýðfræðilegar breytur: aldur, kyn, búsetu, menntun og tekjur.
Einbeiting við lestur eða léttlestur
Við mat á ólíkum lesmiðlum þarf að hafa í huga að lestur getur verið með vakandi athygli og fullri einbeitingu – og án einbeitingar, svokallaður léttlestur.Í alþjóðlegri rannsókn Naomi Baron á lestri háskólanema sem út kom á bók 2015 kom fram að 92% þeirra töldu sig ná mestri einbeitingu við lestur af pappír og 86% töldu hann henta best til lesturs á námsefni háskóla. Þeir töldu mikið léttara að finna aftur þekkingaratriði í námsefni á pappír og endurlestur því auðveldari. Þá kom fram að 2/3 lesenda telja sig gera fleira en eitt í einu meðan þeir lesa af skjá og töluðu þeir um mikið áreiti af öðru efni á rafrænum miðlum.
Tölvum og skjáum má skipta í þrennt: þögla skjái sem eingöngu eru ætlaðir til lestrar (lesbretti), skjái sem keyra önnur forrit (spjaldtölvur) og skjái þar sem truflandi samskiptabúnaður keyrir (snjallsímar). Ólík tæki henta við ólíkan lestur.
Niðurstöður
Niðurstöður eru þær helstar að skjáir hafa yfirtekið sem meginlesmiðillinn hér á landi og er um 2/3 lestrartíma svarenda varið við þá. Að jafnaði er lesið í 151,6 mín. eða 2,5 klst. á dag; 100,1 mín. af skjá og 51,5 mín. af pappír. Þessi þróun hefur einkum gerst í þremur tegundum lesefnis; mest í samskiptum, þá í fréttalestri og loks í lestri almennra upplýsinga og auglýsinga. 90,6% lesturs vegna samskipta er við skjá og má jafnvel ætla að sendibréfið sé horfið nema úr opinberu lífi. 71,1% fréttalestrar er við skjá og um 68,1% af lestri almennra upplýsinga og auglýsinga af skjá. Lestur skólabóka og fræðsluefnis er jafnmikill af hvorum miðli fyrir sig. Bækur aðrar en skólabækur eru hins vegar lesnar af pappír í 76,7% af lestrartíma og aðeins í 23,3% af skjáum. Bækurnar eru síðasta höfuðvígi pappírsins. Sjá nánar í töflu 1.Fram kemur einnig að meira en helmingur Íslendinga les í 1-3 klst. á dag; 13,6% minna og 32,4% meira og sumir afar mikið. Þá kemur í ljós að lesendur skiptast í hópa og stór hópur les bækur alls ekki af skjá en annar hópur, sem ætla má að sé mikið minni, les bækur mikið af skjá. Sama má segja um samskipti með pappír; mjög stór hópur stundar þau ekki, les sennilega hvorki né sendir bréf eða jólakort, en lítill hópur stundar þau töluvert eða mikið. Fréttalestur af skjá er almenningseign; þótt breytileikinn sé nokkur lesa flestallir fréttir af skjá í einhverjum mæli, einnig þeir sem lesa þær líka af pappír.
Lýðfræðilegar breytur
Athyglisvert er að menntun og tekjur, sem um áratugi hafa haft mest forspárgildi um tölvunotkun bæði hér heima og erlendis, skipta litlu máli þegar kemur að lestri í það heila tekið. Hvað lestrarástundun varðar er Ísland tiltölulega stéttlaust samfélag. Lestur af skjá vex hins vegar með aukinni menntun og tekjum og er minni á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu.Á töflu 2 á sjá skiptingu daglegrar lestrarástundunar eftir aldri og tegundum lesmiðla og lesefnis.
Kyn skiptir máli hvað varðar lestrartíma og lesefni, en konur lesa í sömu hlutföllum af ólíkum lesmiðlum og karlar. Á töflu 3 má sjá hvað konur lesa að jafnaði mikið daglega, mismun miðað við karla í mín. og hlutfall aukins lesturs kvenna miðað við karla.
Konur lesa meira en karlar, nema fréttir sem þær lesa í sama mæli. Þær lesa hins vegar skólabækur 25% meira en karlar sem er mjög athyglisverður mismunur. Þá stunda konur samskipti í 45,6 mín. á dag sem er 15,5% meira en karlar gera og samsvarar 6,1 mín. á dag. Í heildina lesa konur í um 15 mín. meira á dag en karlar eða sem nemur 8 klst. eða einum vinnudegi á mánuði.
Samantekt
Ef spurt er hversu mikið er lesið af prentuðum bókum öðrum en skólabókum og hverjir lesa mest þá kemur í ljós að lestur, sem kalla mætti yndislestur, eykst með aldrinum. Yngsti aldurshópurinn les bækur aðeins í um 10 mínútur á dag, þeir sem eru yfir fimmtugt tvöfalt meira og þeir sem komnir eru á eftirlaunaaldur tvöfalt meira en þeir eða í rúmlega 40 mínútur.En ef samanlagður lestur bóka og skólabóka af báðum miðlum er skoðaður, þ.e. allur lestur sem krefst einbeitingar, þá les yngsti aldurshópurinn mest eða í um 1 klst. á dag, eftirlaunaþegar í 57 mín., aðrir sem eru yfir 50 ára í um 45 mín. og aldurshóparnir frá 25-50 ára lesa bækur í rúmlega 30 mínútur á dag.
(Byggt á greininni í Skírni).
Höfundur er stjórnsýslufræðingur. haukura@haukura.is