Ævintýrin gerast enn og loks hefur prinsinn fundið sína prinsessu. Laugardaginn 19. maí gengur Harry prins, yngri sonur Karls Bretaprins og Díönu Spencer, upp að altarinu þar sem hann innsiglar ást sína á bandarísku leikkonunni Meghan Markle.
Brúðarkjóll Markle hefur verið vandlega falinn og ekkert er gefið upp í þeim efnum. Jafnvel Harry prins hefur ekki fengið að berja hann augum. Miklar getgátur hafa verið um hver hafi fengið að hanna þennan heimsfræga brúðarkjól en helst er veðjað á að það hafi komið í hlut teymisins Ralph og Russo. Hið sanna kemur ekki í ljós fyrr en í athöfninni sjálfri. Ljóst er að því fylgir bæði heiður og frægð að vera treyst fyrir slíkri hönnun.
Í gegnum árin hafa prinsessur skartað brúðarkjólum eftir frægustu hönnuði heims. Tískan breytist með tímanum og konunglegir brúðarkjólar eru þar engin undantekning. Gaman er að sjá brúðarkjóla prinsessa og drottninga í gegnum tíðina.