Netta Barzilai hefur sagt að lag sitt, TOY, fjalli m.a. um valdeflingu kvenna, en lagasmíðarnar falla nú í skuggann af yfirlýsingu hennar þegar hún tók við sigurverðlaunum í Eurovision 2018 um að keppnin yrði haldin í Jerúsalem.
Netta Barzilai hefur sagt að lag sitt, TOY, fjalli m.a. um valdeflingu kvenna, en lagasmíðarnar falla nú í skuggann af yfirlýsingu hennar þegar hún tók við sigurverðlaunum í Eurovision 2018 um að keppnin yrði haldin í Jerúsalem. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netta Barzilai kom, sá og sigraði í Eurovision í Lissabon. Hún segir lag sitt eiga að vera valdeflandi fyrir alla sem verða undir, en yfirlýsing hennar um að keppnin verði í Jerúsalem að ári þykir ekki til þess fallin að stuðla að friði.

Sigur hinnar ísraelsku Nettu Barzilai í Eurovision hefur vakið misjöfn viðbrögð. Ekki aðeins vegna ólíks smekks fólks á tónlist heldur vegna ófriðar sem ríkir nú á Gazasvæðinu og tengist flutningi sendiráðs Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem. En það er ekki aðeins það að Ísrael skuli hafa sigrað á sama tíma og ísraelskum byssukúlum rignir yfir Palestínumenn á Gaza sem veldur titringi, heldur þótti Netta sjálf blanda pólitík í keppnina með því að lýsa því yfir að keppnin að ári yrði haldin í Jerúsalem, en bæði Ísraelar og Palestínumenn gera tilkall til borgarinnar og ríki Evrópu hafa mörg mótmælt þeirri ákvörðun Donalds Trumps að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Deilur blandast gleði

Mikið hefur verið gert úr því að Eurovision eigi að vera ópólitísk keppni. Þar eigi ólík sjónarmið, ólíkar þjóðir og fólk af ýmsum trúarbrögðum að geta mæst, notið tónlistar (og vindvéla) og skemmt sér á jafningjagrundvelli, án þess að pólitík og alþjóðlegum deilum sé blandað of mikið inn í gleðina.

Keppnin hefur þó alls ekki alltaf verið frjáls frá stjórnvöldum einstaka landa. Skemmst er að minnast þess þegar fulltrúi Rússlands, Julia Samoilova, fékk ekki að koma til Kænugarðs árið 2017 þar sem yfirvöld í Úkraínu leyfðu henni ekki að koma inn í landið. Ástæðan var sögð sú að hún hefði verið með ólöglegum hætti inni á Krímskaga.

Eftir að Netta Barzilai tók við verðlaunagrip úr hendi Salvadors Sobrals, sigurvegara keppninnar í fyrra, sagði hún hátt og snjallt „Next year in Jerusalem“ eða „Að ári í Jerúsalem“. Þessi orð hafa vakið mikla gleði hjá forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, og hann var snöggur að enduróma þau á samfélagsmiðlum. Yfirlýsingin um að keppnin verði haldin í Jerúsalem kemur ofan í yfirstandandi deilur um hver eigi tilkall til borgarinnar. Flutningi sendiráðs Bandaríkjanna frá Tel Aviv til Jerúsalem hefur undanfarið verið harðlega mómælt á Gazasvæðinu og víðar, m.a. í Bandaríkjunum. Ríki Evrópu hafa einnig lýst yfir óánægju með framgöngu Bandaríkjanna og sendu t.a.m. afar fá ríki fulltrúa í opnun nýja sendiráðsins.

Hér á landi hafa rúmlega 23 þúsund manns skrifað undir áskorun til RÚV um að Ísland taki ekki þátt í keppninni í Jerúsalem að ári til að mótmæla aðgerðum Ísraela á Gaza. Á Írlandi hefur einnig verið fjallað um möguleikann á að landið dragi sig úr keppni eftir að borgarstjórinn í Dublin og fleiri stjórnmálamenn hafa sagst vilja að Írland sniðgangi keppnina að ári. Athygli vekur þó að á vef Eurovision-keppninnar sjálfrar er ekki búið að gefa út hvar keppnin verður haldin, aðeins segir að hún verði í Ísrael 2019 og „líklegt“ sé að hún verði í Jerúsalem, en Tel Aviv einnig nefnd sem kostur.

Netta Barzilai hefur sjálf sagt að lag sitt fjalli um það að vera öðruvísi, um það að mótmæla hlutgervingu kvenna og um það að verða undir. „Þetta er valdeflandi lag fyrir alla þá sem hafa glímt við að viðurkenna sjálfa sig, glímt við stjórnvöld eða hafa upplifað það að einhver gerir lítið úr rétti þeirra til að vera til.“