Björgun Zoltán Szénássy og Alpár Katona úrvinda á leið til Hafnar í Hornafirði eftir svaðilfarirnar á Vatnajökli.
Björgun Zoltán Szénássy og Alpár Katona úrvinda á leið til Hafnar í Hornafirði eftir svaðilfarirnar á Vatnajökli. — Ljósmynd/Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Alpár Katona og Zoltán Szénássý, fjallgöngu- og skíðamenn frá Rúmeníu, sem lentu í snjóflóði á Vatnajökli um miðjan dag á fimmtudag, safna nú kröftum á Höfn í Hornafirði eftir svaðilfarir undanfarinna daga.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Alpár Katona og Zoltán Szénássý, fjallgöngu- og skíðamenn frá Rúmeníu, sem lentu í snjóflóði á Vatnajökli um miðjan dag á fimmtudag, safna nú kröftum á Höfn í Hornafirði eftir svaðilfarir undanfarinna daga.

„Við áttum ekki von á því að lenda í snjóflóði og það var slæm tilfinning að berast með flóðinu,“ segir Katona og bætir við að félagi hans hafi farið alveg á kaf.

„Við vorum í áfalli fyrstu mínúturnar þegar við uppgötvuðum að allur okkar búnaður hafði sópast burt. Við höfum stundað fjallgöngur í 20 ár og náðum fljótt áttum. Það er mikilvægt að hugsa skýrt og taka réttar ákvarðanir í þeim aðstæðum sem við lentum í. Fljótlega fundum við mat, vatn og svefnpokana okkar en skíði, tjald og annar búnaður fannst ekki. Það sem týndist eru bara dauðir hlutir sem skipta ekki máli í dag,“ segir Katona, sem er þakklátur björgunarsveitarmönnum sem hann segir að hafi fundið þá mjög fljótt og allt skipulag hafi verið til fyrirmyndar.

Verst að týna skíðunum

Katona segir að það hafi verið verst að týna skíðunum.

„Við hefðum ekkert komist áfram án skíða í þeim stormi sem þarna geisaði og þess vegna ákváðum við að grafa okkur í fönn. Við vorum búnir að vera lengi á ferðinni og því orðnir mjög þreyttir,“ segir Katona og heldur áfram að hrósa björgunarsveitarmönnum sem tóku þátt í leitinni.

„Þeir gáfu okkur að drekka, létu okkur hafa þurr föt, sjúkraliði kíkti á okkur og ég held að það hafi verið sálfræðingur sem talaði við okkur í heitum bílnum á leiðinni. Þegar á Höfn var komið keyrðu þeir okkur á gististað og kvöddu,“ segir Katona.

Þeir Szénássý ætluðu að hvíla sig í gærkvöldi eftir að hafa vakað meira og minna í tvo sólarhringa.

„Eftir góðan svefn verður allt betra. Við fljúgum af landi brott á þriðjudag og vonumst til þess að geta skoðað meira af hinu fallega Íslandi fyrir þriðjudaginn,“ segir Katona, sem ætlar að koma aftur með fjölskylduna.

„Það var búið að segja okkur hvað það væri fallegt á Íslandi og við sáum það þegar við keyrðum meðfram suðurströndinni að Höfn. Okkur langar að fara gullna hringinn ef hægt er áður en við förum heim,“ segir Katona, sem vildi í lok viðtalsins senda björgunarmönnum sínar innilegustu þakkir frá innstu hjartarótum fyrir björgunina.

18 klukkustunda aðgerð

Friðrik Jónas Friðriksson, sem stjórnaði aðgerðum vegna björgunarinnar á Vatnajökli, segir að björgunaraðgerðir hafi staðið yfir í 18 klukkustundir og af öllum þeim sem þátt tóku í þeim hafi um það bil 20 manna hópur verið að störfum allan tímann.

„Fjallamönnunum varð ekki meint af snjóflóðinu og vistinni á jöklinum líkamlega en andlega hlýtur þetta að hafa tekið á,“ segir Friðrik. Hann segir að annar mannanna hafi verið orðinn mjög kaldur.

Allir komu heilir heim

„Þeir voru hætt komnir en brugðust rétt við aðstæðum. Þeim var brugðið og voru þreyttir en leið vel eftir aðhlynningu frá okkur. Við keyrðum þá á gistihús á Höfn upp úr hádegi þar sem þeir ætluðu að hvílast,“ segir Friðrik og bætir við að allir hafi komist heilir heim og það sé það sem skipti öllu máli.