Ráðherra Svandís Svavarsdóttir.
Ráðherra Svandís Svavarsdóttir. — Morgunblaðið/Valli
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu í gær en í þessari stofnun felst rúmlega 80 milljóna króna fjáraukning til íslensku heilsugæslunnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu í gær en í þessari stofnun felst rúmlega 80 milljóna króna fjáraukning til íslensku heilsugæslunnar.

Þróunarmiðstöðin leysir af hólmi Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hefur verið starfrækt frá árinu 2009. Eitt af meginmarkmiðum stofnunarinnar er að samræma og samhæfa heilbrigðisþjónustu á landsvísu og þannig tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að sambærilegri heilsugæslu óháð landshlutum.

Skipar fagráð með breiðri fagþekkingu

Heilbrigðisráðherra mun skipa fagráð Þróunarmiðstöðvarinnar en í því mun sitja fulltrúi frá hverri heilbrigðisstofnun sem rekur heilsugæslustöð, einn fulltrúi sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva, einn frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og einn frá heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri. Forstöðumaður Þróunarmiðstöðvarinnar verður ráðinn af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Við búum við mjög gott heilbrigðiskerfi á alþjóðlegan mælikvarða en við vitum líka að það er að sumu leyti brotakennt og skortir samfellu í þjónustunni,“ sagði Svandís er hún tilkynnti stofnun miðstöðvarinnar.