Birna Jóhannsdóttir fæddist á Þórshöfn á Langanesi 26. september 1938. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 9. maí 2018.
Foreldrar hennar voru Lára Lárusdóttir frá Heiði á Langanesi, f. 12.12. 1908, d. 8.4. 1997 og Jóhann Snæbjörn Snæbjörnsson frá Barká í Hörgárdal, f. 2.9. 1902, d. 2.9. 1978.
Systkini Birnu eru: Erla, f. 1930, d. 2012, Bragi, f. 1931, d. 2010, Arnþrúður Heiðrún, f. 1932, d. 1990, Hörður, f. 1934, d. 2012, Baldur, f. 1934, Hermann, f. 1941, Sigrún, f. 1942, Sæmundur Snorri, f. 1947, Lárus Margeir, f. 1948, Trausti, f. 1951.
Þann 12.12. 1958 giftist Birna Óttari Sævari Magnússyni, f. 25.6.1937. Foreldar hans voru Hólmfríður Oddsdóttir, f. 19.9. 1899, d. 3.5. 1984, og Magnús Sveinsson, f. 9.7. 1892, d. 22.12. 1951. Þau skildu. Börn þeirra eru:
1) Hörður Reimar, f. 23.8. 1957. Hann eignaðist þrjá syni með Guðrúnu Daníelsdóttur, þau skildu. Daníel Guðmundur, f. 26.11. 1985, Sindri Snær 26.8. 1990, Birkir Mar, f. 12.1. 1995. Fyrir átti Hörður Helgu Dögg, f. 8.11. 1976, með Svövu Einarsdóttir, barn hennar: Mathias Dagur Helguson f. 2009.
2) Jóhanna Lára, f. 22. 4. 1959. Hún eignaðist þrjú börn með Steinari Snorrasyni, þau skildu. Sævar Birnir, f. 28.9. 1984, í sambúð með Elínu Ásu Magnúsdóttur f. 1981, barn þeirra: Birnir Elí, f. 2015, fyrir átti Elín Matthías Þór Árnason, f. 2009, Þórdís f. 1986, Arna Björg, f. 1994, Jóhanna er í sambandi með Gunnari Þ. Geirssyni f. 25.3. 1959.
3) Magnús Sævar, f. 31.8. 1962. Hann eignaðist þrjú börn með S. Þóreyju Guðlaugsdóttur, þau skildu. Lára, f. 1984, maki Jón F. Eiríksson, f. 1976, börn þeirra: Kolbrún Líf og Eiríkur Frímann, Óttar Sævar, f. 1993, d. 2014, barn hans Viktoría Ósk, f. 2014, Eyþór Arnar, f. 1998, unnusta: Lena H. Örvarsdóttir, f. 1999, fóstursonur Guðlaugur Ólafsson Schram, maki Helga Sveinsdóttir, börn þeirra: Sveinn Nökkvi, Magnea Þórey og Þorsteinn Jökull.
4) Snæbjörn, f. 16.2. 1968. Hann eignaðist þrjú börn með Salvöru Pétursdóttur, þau skildu. Silvía Sól, f. 1994, unnusti: Hlynur F. Viggósson, Pétur Örn, f. 1995, Birna Rún, f. 2000, unnusti: Daniel K. Larsen.
5) Kolbrún, f. 10.11. 1969. Hún eignaðist barn með Guðrúnu S. Guðbrandsdóttur, þær skildu. Hugrún Hanna, f. 2006. Sambýliskona Kolbrúnar er Kristín Amelía Þuríðardóttir, f. 1979, börn hennar: Bergur, f. 2002, Arnar, f. 2004, Hanna, f. 2008.
Birna ólst upp á Þórshöfn á Langanesi og á Heiði á Langanesi.
Sjö ára flutti Birna ásamt fjölskyldu sinni til Borgarness.
Birna og Óttar hófu sambúð ung að aldri á Bjarkargrund á Akranesi. Þau fluttu árið 1963 í Borgarnes, þar byggðu þau hús sitt að Sæunnargötu 11. Birna flutti til Reykjavíkur árið 2004, að Neðstaleiti, þar bjó hún til dauðadags.
Ævistarf Birnu var tengt mat, hún vann sem matráðskona á sjó, sláturhúsinu í Borgarnesi, vegavinnuflokkum á Vesturlandi, hjá BTB og Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi. Birna var forstöðukona róluvallar Borgarness á sumrin í áratug.
Útför Birnu fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 19. maí 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.
Elsku hjartans mamma mín!
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta,
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Elsku besta mamma mín, hvíldu í friði.
Þín dóttir,
Hanna Lára.
Á slíkum tímamótum koma upp í hugann margar góðar minningar, sem ég er þakklátur fyrir.
Ég kynntist Birnu fljótlega eftir að við Hanna Lára fórum að hittast á síðari hluta árs 2015.
Þessi smávaxna en knáa kona var alltaf létt í bragði þegar við hittumst, alltaf fékk maður þétt faðmlag og koss á kinn og alltaf var stutt í spaugið hjá henni.
Við Birna náðum vel saman og aldrei bar nokkurn skugga á okkar samband, og þótti mér mjög vænt um hana og hversu vel hún tók mér, þessu nýja „viðhengi“ inn í sína fjölskyldu.
Ég kvaddi Birnu seint um kvöld þann 8. maí sl., ég tók þétt í höndina á henni, beygði mig niður að henni og sagði: „Birna mín, þetta er Gunni, ég er að fara heim núna“ – og í sömu andrá opnaði hún augun upp á gátt smá stund og lokaði þeim svo aftur rólega, það er augnablik sem ég gleymi aldrei. Ég kyssti hana á ennið og bauð henni góða nótt. Síðar þá um nóttina var hún látin.
Börnin hennar og barnabörn voru henni stoð og stytta í veikindum hennar, allt fram á síðasta dag og færi ég þeim öllum innilegar samúðarkveðjur.
Það er alltaf sárt að sjá á eftir fólkinu sínu fara en þannig er víst gangur lífsins. En við sem eftir stöndum yljum okkur við góðar minningar.
Kæra Birna, fleyi þínu hefur nú verið ýtt úr vör og góðar vættir færa þig yfir að bakkanum hinum megin, þar verður tekið vel á móti þér – það veit ég.
Hvíl í friði.
Guðdómlegur geisli blíður
greiðir skuggamyrkan geim;
á undra vængjum andinn líður
inn í bjartan friðarheim.
(Hugrún)
Gunnar Þór Geirsson.
Það er fullt af minningum sem munu ylja mér um ókomna tíð um þig og tímann okkar saman sem var því miður alltof stuttur. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og njóta alls þess sem þú ert. Þú tókst mér og börnunum mínum opnum örmum og hittir okkur í hjartastað. Börnin sáu í þér það sem þau höfðu átt í föðurömmu sinni, húmor, umhyggjusemina og gleði. Það er ómetanlegt og ekki sjálfgefið að finna að börnin mín væru þín líka. Þú samfagnaðir svo innilega með okkur þegar við vorum að fara að gera eitthvað skemmtilegt, hvattir okkur til að lifa lífinu, njóta og beiðst spennt eftir sögum en sérstaklega eftir myndum á Facebook sem þú dundaðir við að skoða. Það var dásamlegt að hlusta á þig kveðja okkur með fallegu orðunum þínum sem við munum áfram nota. Takk, elsku Birna mín, fyrir tímann okkar saman, miklu meiri.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum
lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
(23. Davíðssálmur)
Kveðja,
Kristín Amelía Þuríðardóttir.
Hér er smá kveðja frá mér til þín.
Nú flogin ert þú burt,
elsku amma mín.
Himinninn er blár og fagur,
fuglasöngur heyrist í kyrrðinni.
Það fer að rökkva,
ég finn hvernig næturdöggin færist yfir
mér verður kalt.
Ég horfi upp í himininn,
og sé þar ljós,
þetta ljós ert þú.
Mér hitnar,
ég finn hvernig þú vakir yfir mér.
Á degi sem fugl,
á nóttu sem ljós í myrkrinu.
(Þórdís St.)
Þín,
Þórdís.
Ég mun aldrei gleyma þér. Þú bakaðir bestu lummur í heimi. Þú ert amma sem ekki er hægt að gleyma. Elska þig alltaf, ég mun aldrei gleyma þér.
Þín,
Hugrún Hanna.