Gufuneshöfn Gamli Þór lá lengi við bryggjuna, illa farinn eins og bryggjan sjálf..
Gufuneshöfn Gamli Þór lá lengi við bryggjuna, illa farinn eins og bryggjan sjálf.. — Morgunblaðið/Ómar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Endurbyggja þarf bryggjuna í Gufunesi ef hún á að geta þjónað skipum. Hluti hennar brann fyrir nokkrum árum auk þess sem ekkert hefur verið gert fyrir hana frá því að Áburðarverksmiðjan hætti starfsemi þar árið 2002.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Endurbyggja þarf bryggjuna í Gufunesi ef hún á að geta þjónað skipum. Hluti hennar brann fyrir nokkrum árum auk þess sem ekkert hefur verið gert fyrir hana frá því að Áburðarverksmiðjan hætti starfsemi þar árið 2002. Þetta segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Reykjavíkurborg hefur borist fyrirspurn dagsett 27. mars síðastliðinn varðandi mögulega staðsetningu gistiskips við bryggju í Gufunesi. Erindinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá borginni.

Bryggjupláss ekki tiltækt

„Það koma reglulega fyrirspurninr til okkar um hvort hægt sé að leggja skipi til að stunda hótelrekstur. Svar okkar hefur alltaf verið neikvætt,“ segir Gísli.

Hann segir að í fyrsta lagi hafi Faxaflóahafnir ekki bryggjupláss til að taka skip í viðvarandi legu. Í öðru lagi þurfi hótelstarfsemi talsvert svæði á landi sem ekki sé fyrir hendi. Í þriðja lagi sé regluverk um rekstur hótelskipa ófullkomið, t.d. er varðar brunavarnir, leyfismál og fleira. Í fjórða lagi hafi Faxaflóahafnir ekki viljað heimila rekstur sem væri í raun í samkeppni við starfsemi á landi þar sem ýmis gjöld eru greidd sem ekki eiga við um viðlegu skipa (fasteignagjöld o.fl.). Í fimmta lagi séu hugmyndir um svona skip mismunandi, sum séu með haffæri en önnur tæp á slíku.

„Við höfum því ekki áhuga á að taka í Gömlu höfnina svona rekstur því ef hann fer illa þá sitjum við uppi með skipin,“ segir Gísli. Hann kveðst vita til þess að fleiri hafnir hafi fengið svona beiðnir, t.d. Hornafjörður og Hafnarfjörður.

Þegar leiðtogafundur Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhail Gorbachev Sovétleiðtoga fór fram í Reykjavík 11.-12. október 1986 lágu þrjú hótelskip í Gömlu höfninni. Tvö rússnesk skip lágu við Ægisgarð, Baltika og Georg Ots. Norska ferjan Boletta lá við Austurbakka. Gorbachev og Raisa kona hans kusu að búa um borð í Georg Ots meðan á dvöl þeirra stóð.