Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
London er dásamlega alþjóðleg borg, hún hefur þennan gamla íhaldssama breska grunn, en ofan á hann kemur fólk allsstaðar að úr heiminum. Svo blandast öll þessi menning saman og úr því spretta margar nýjar hugmyndir. Ég upplifi mig sem Londonbúa, en líka sem útlending, sem er í góðu lagi, af því borgin er full af útlendingum,“ segir Sara Björnsdóttir listakona, sem búið hefur í London undanfarin þrjú ár og starfar þar að list sinni.
„Mitt eðli er líklega sígaunaeðli, ég hef ekki tekið almennilega upp úr töskunum og er á miklum flækingi. Það hentar mér mjög vel. Ég ræð mér sjálf og mér finnst gott að vera ekki bundin og geta farið þegar mér hentar. Það er svo mikilvægt að fara í burtu og opna á sér heilann fyrir nýjum upplifunum og því að maður viti ekki allt.“
Reynsla í Óðali feðranna
London býður upp á ýmis tækifæri, m.a getur fólk sem þar býr skráð sig hjá umboðsskrifstofum þar sem það gefur kost á sér sem aukaleikara í kvikmyndum. Og Sara gerði það.„Þetta er tilvalið fyrir mig sem listamann, að hlaupa í vinnu sem aukaleikari til að vinna fyrir salti í grautinn, því ég get valið hvaða verkefni ég tek að mér og hvenær. Þetta byrjaði allt á því að Íslendingur sem var að vinna við nýju Blade Runner myndina var beðinn um að aðstoða við að finna hóp af ljóshærðum kvenkyns íslenskumælandi aukaleikurum, eldri en fimmtíu ára. Ég sló til og sendi inn mynd af mér með upplýsingum, en svo kom þetta aldrei til, því þetta endaði í myndinni sem hópur af Svíum, held ég. En í framhaldinu skráði ég mig hjá nokkrum umboðsskrifstofum og fljótleg fóru að berast möguleg verkefni,“ segir Sara og bætir við að vinna aukaleikara geti verið með ýmsu móti, oft í hópsenum, en líka sem einstaklingar.
„Ég er ekki algjör nýliði, því ég var aukaleikari fyrir margt löngu í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Óðali feðranna, þá var ég í heilt sumar úti í sveit við æfingar og upptökur og ég fékk meira að segja línu til að segja.“
Svartar skikkjur til varnar paparözzum með dróna
Sara skráði sig í verkefni sem hentaði henni í tíma, en hún vissi ekki hvaða kvikmynd það væri, eina sem hún vissi var að um stórmynd var að ræða. „Ég var kölluð inn í mátun á búningum og myndatöku og fékk djobbið. Þetta reyndist allt saman mjög áhugavert og gaman að fá að kynnast þessum heimi kvikmyndanna. Þegar ég kom í upptöku tíu dögum síðar var ég í hópsenu með mörgum aukaleikurum. Við fórum í búninga og vorum keyrð í rútu á tökustað, en þá var varpað yfir okkur svörtum skikkjum með hettum, því það hafði sést til dróna svífandi yfir, paparazzar að reyna að ná myndum af leikurum á leið í tökur. Í þessum skikkjum vorum við eins og flokkur af költ-liði, í halarófu,“ segir Sara og hlær. „Það var líka tjald yfir settinu á tökustaðnum, til að verjast drónum. Þegar við mættum í tökuverið voru símarnir okkar gerðir upptækir svo við tækjum ekki myndir, allt var háleynilegt. Ég vissi ekki hvaða kvikmynd þetta var fyrr en fyrsta tökudaginn þegar ég komst að því að þetta væri nýjasta Star Wars myndin, það hreyfði ekki mikið við mér, því ég er enginn Star Wars aðdáandi, en fannst það skemmtilegt samt,“ segir Sara og hlær, en myndin kemur út núna í maí, og heitir Solo: A Star Wars Story, og fjallar um eina persónu sagnaflokksins, Han Solo.
Þúsund manns skráðu sig
„Eitt af því sem gaman var að gera var að spjalla við hina statistana og ég komst að því að fólk hafði áhuga á því hvað aðrir í hópnum væru búnir að fá mörg verkefni sem aukaleikarar, hversu lengi þau voru búin að starfa við þetta og í hvaða myndum áður en þeir fengu vinnu við þessa mynd. Þegar ég sagði þeim aðspurð að þetta væri mitt fyrsta verkefni fannst þeim það fyndið og ég heppin, ég var algjör nýliði. Það höfðu að þeirra sögn þúsund manns skráð sig hjá umboðsskrifstofunni þegar fréttist að hún ætti að finna statista í Star Wars. Margir þeirra sem vinna sem aukaleikarar, „safna myndum“, vilja leika í þessum frekar en hinum og þessi mynd var ein af þeim, alla vega fyrir aðdáendur Star Wars. Nokkrir þeirra voru á þessum tíma að leika í Star Wars og Queen og höfðu verið í Blade Runner, ég gat þá sagt þeim að ég hafði fengið beiðni um að vera syngjandi nunna í Queen-myndinni. Beiðnin var að syngja línu í laginu Bohemian Rhapsody og senda umboðsskrifstofunni. En ég hefði ekki getað tekið það að mér, af því ég fór úr landi á þeim tíma sem tökurnar voru,“ segir Sara sem hafði stuttu áður farið á söngnámskeið hjá gospelsöngkonu í kjallaranum á St Martin in the Fields-kirkjunni á Trafalgartorginu, og skráði sig í framhaldinu í kór Íslendinga í London. Hún segir það hjálpa til við að fá vinnu sem aukaleikari, að geta sungið, þó hún hafi farið á námskeiðið til að frelsa röddina eins og hún orðar það.
Ævintýralegur ljómi yfir
Sara segir að vel hafi verið farið með aukaleikarana. „Við vorum þarna í tvo daga, í 12 tíma á dag og passað var upp á að við yrðum ekki svöng, það voru tvær innréttaðar rútur á tökustað fyrir okkur, með borðum og bekkjum og þar var nóg af tei og kexi sem er ákaflega enskt. Við fengum mikinn og góðan morgunmat, hádegisverð, síðdegiskaffi og kvöldverð. Mikill tími fór í bið, en það var bara gaman, ég las, spjallaði við fólk, fylgdist með stórleikurunum og öllu hinu fólkinu og öllum græjunum. Þetta er heill heimur og ævintýralegur ljómi yfir. Það var áhugavert að kynnast aukaleikurunum, þetta er allskonar fólk, vel menntað og úr öllum stéttum, mikið af listafólki. Þarna var til dæmis fuglafræðingur með afar sérstakt útlit, eins og brjálaður vísindamaður, enda sagðist hann oft fá slík hlutverk. Svo var þarna maður sem virtist vera einfari og leit út eins og rokkstjarna en hann var einmitt í Queen myndinni. Eina konuna í aukaleikarahópnum kannaðist ég svo mikið við, og þegar ég sagði það við hana kom í ljós að hún hefur leikið aukahlutverk í sjónvarpsþáttunum EastEnders í 20 ár, leikur þar búðareiganda og kemur af og til fyrir í þáttunum. Það er hellingur af fólki sem lifir af því einvörðungu að vera statistar í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þessi kona og maðurinn hennar hafa gert það í áraraðir,“ segir Sara. „Þarna var líka týpa sem vildi verða uppgötvuð og varð fúl ef hún var ekki sett nálægt aðalfjörinu á tökustað.“
Máttum ekki horfa í augun á leikurum né ávarpa þá
Sara segir það hafa verið góða skemmtun að spjalla við hina aukaleikarana.„Við vorum meðal annars að hlæja að og velta fyrir okkur stéttaskiptingunni í kvikmyndaheiminum. En ég lærði líka ýmislegt af þeim og þau voru óþreytandi við að gefa mér ráð og benda á góðar umboðsskrifstofur. Sem aukaleikari fer maður á sett, er dregin hingað og þangað og fær „kjú“ um hvað maður á að gera. Maður á bara að hlýða leiðbeiningum, einskis spyrja og ekki vera til trafala. Við megum ekki horfa í augun á aðalleikurunum og ekki ávarpa þá, enda eru þeir í sínum heimi að einbeita sér.“
Sara segir að hana hafi á þessum tíma langað mikið í kúrekaskó, og þegar hún sá konu í kúrekaskóm fyrir utan pásurútuna, fór hún að snusa í kringum hana til að skoða skóna.
„Þegar ég leit upp af skónum sá ég að hún starði á mig undrandi. Ég kannaðist roslega við andlitið á henni, datt helst í hug að hún væri ofan af Skaga,“ segir Sara og skellihlær, en hún er uppalin á Akranesi. „Einu sinni Skagamaður, alltaf Skagamaður,“ segir Sara og bætir við að ástæðan fyrir því að hún kannaðist svona við meinta 'Skagapíu', hafi verið sú að þetta var konan sem lék hvíthærðu drekamóðurina í Game of Thrones, Emily Clark.
„Þess vegna kannaðist ég svona við hana og hélt hún væri af Skaganum, frábær tenging,“ segir Sara og skellir upp úr.
Hún segir að í einu atriðinu hafi gleymst að gefa henni „kjú“, sem henni fannst fjarska fínt.
„Þegar hrópað var „action“ fór ég af stað og hugsaði: „Hér er ég í Star Wars að gera það sem mér sýnist.“ Það var mjög skemmtileg og fríkuð tilfinning að detta í þetta flæði, kannski hafa allir þeir gjörningar sem ég hef gert hjálpað til. Ef þetta atriði verður ekki klippt út, og ég sé sjálfa mig þegar myndin verður sýnd, þá á ég eftir að hlæja,“ segir Sara og tekur fram að hún hafi ekki hugmynd um hvort nokkurt af þeim atriðum sem hún var í verði klippt út eða ekki. En hún hlakkar til að takast á við fleiri verkefni sem aukaleikari, því hún hefur fengið nokkuð af beiðnum nú í vor, sumarið er greinilega tíminn.