Dr. Páll Melsted, prófessor við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands hlaut Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2018 sem voru afhent á Rannsóknarþingi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti Páli verðlaunin á þinginu.
Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987.
Páll Melsted er fæddur árið 1980. Hann lauk BS-gráðu í stærðfræði með ágætiseinkunn frá Háskóla Íslands árið 2003 og doktorsprófi frá stærðfræðideild Carnegie Mellon háskóla í Pittsburgh í Bandaríkjunum árið 2009 á sviði reiknirita, fléttufræði og bestunar. Eftir doktorsnám starfaði hann í tvö ár sem nýdoktor við mannerfðafræðideild Chicago-háskóla.
Auk þess að sinna prófessorsstöðu við HÍ starfar Páll nú einnig sem vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Greina magn upplýsinga
Vísindalegt framlag Páls hefur aðallega legið á sviði lífupplýsingafræði.Hann hefur þróað stærðfræðilegar aðferðir sem nýtast til að greina það gríðarlega magn gagna sem aflað hefur verið með nýjum greiningaraðferðum í erfðafræði á undanförnum árum.
„Sérstaklega hefur Páll beitt sér fyrir því að þróa aðferðir sem gera rannsakendum kleift að framkvæma flókna útreikninga með venjulegum tölvum í stað þess að treysta á aðgang að ofurtölvum,“ segir í tilkynningu frá Rannís.