[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Tilfellum sýkinga af völdum salmonellu fjölgaði talsvert á árinu 2017 frá árunum á undan. Samtals greindust 64 tilfelli í fyrra en árið 2016 greindust 20 tilfelli og einungis 10 árið 2015.

Fréttaskýring

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Tilfellum sýkinga af völdum salmonellu fjölgaði talsvert á árinu 2017 frá árunum á undan. Samtals greindust 64 tilfelli í fyrra en árið 2016 greindust 20 tilfelli og einungis 10 árið 2015. Þetta kemur fram í nýrri farsóttaskýrslu Landlæknisembættisins.

Í skýrslunni segir að óvenjumargar sýkingar hafi greinst af völdum salmonella enteritidis, 12 talsins, en allar reyndust þær upprunnar erlendis fyrir utan hugsanlega eina. Á árinu greindust einnig 11 einstaklingar með iðrasýkingu af völdum bakteríunnar salmonella typhimurium, sem er aukning umfram það sem vænta má, en typhimurium er langalgengasta sermisgerðin af salmonellu hérlendis. Frá 2007 hafa 50 tilfelli af typhimurium komið upp á Íslandi en aldrei jafn mörg á einu ári og í fyrra. Átta þeirra greindust í ágúst 2017 og virtust sýkingarnar vera af innlendum toga. Leiddu rannsóknir á þessum bakteríum í ljós að þær voru samstofna í sjö tilfellum og hafa fundist á svínabúi hér á landi. Í einu tilfelli var um þriggja ára barn í Mosfellsbæ að ræða sem var með annan salmonellustofn, sem við nánari greiningu reyndist vera sami stofn og ræktast hefur úr hrossum hér á landi. Þessir bakteríustofnar tengdust ekki hópsýkingum af völdum salmonella typhimurium á Norðurlöndum, sem vart varð við um svipað leyti.

„Flestar af þessum salmonellusýkingum eru að utan en það komu upp hérna tveir litlir faraldrar innanlands sem margir sýktust af. Þessar matarbornu sýkingar eru þannig að ef þetta kemst í matvæli geta margir sýkst,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Spurður hvort náðst hafi að rekja uppruna sýkingarfaraldursins í fyrra segir hann það ekki hafa tekist. „Nei, ekki nákvæmlega. Við erum með salmonellu hér innanlands og innlent smit, hvaðan sem það svosem kemur upphaflega. Stundum getum við rakið það til ákveðinna matvæla en stundum gengur ekki vel að finna nákvæmlega örsokina.“

Sjaldgæf tegund salmonellu

Í byrjun nóvember 2017 greindust sýkingar af völdum salmonella poona hjá fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu. Slík sermisgerð hefur ekki greinst á Íslandi síðan 2008 en þá greindust salmonella poona í hópsýkingu meðal aldraðra og starfsmanna á sambýli á höfuðborgarsvæðinu. Í tilfellinu í fyrra var faðir sýktur en hann var einkennalaus á meðan kona hans og dóttir voru með niðurgang. Fór svo að vista þurfti dótturina á spítala. Fjölskyldan hafði ekki dvalið erlendis og hafði því sýkst hér á landi. Í ágúst 2017 ræktaðist þessi salmonella í ryksýni frá sojamjöli sem kann að hafa verið gefið gæludýrum en það tókst ekki að tengja það sýkingunni í fjölskyldunni.

Þrír einstaklingar greindust með sýkingu af völdum enteróhaemorrhagísks e. coli O157 á árinu 2017. Ekki tókst að finna uppruna smitsins né tengingu þeirra í milli. Greindust einnig þrír einstaklingar með e.coli árið 2016 en einungis einn 2015.

Árin 2007 og 2009 komu upp litlar hópsýkingar af völdum þessarar bakteríu, en ekki tókst þá að rekja uppruna sýkingarinnar með vissu. Þá greindust 25 tilfelli af gíardíusýkingu á Íslandi. Þeir sem greindust voru á öllum aldri en þó einungis einn eldri en 60 ára. Er þetta fjölgun frá árinu 2016, þegar 19 greindust.