Jonna - Jónborg Sigurðardóttir opnar myndlistasýninguna Sjúkdómar í Kartöflugeymslunni í Listagilinu á Akureyri í dag, laugardag, kl.14. Jonna sýnir heklaða skúlptúra þar sem hún túlkar sýn sína á sjúkdóma, raskanir og heilkenni. Samkvæmt upplýsingum frá sýningarhaldara hefur Jonna frá í janúar heklað yfir 60 sjúdóma og á eftir að halda áfram með þessa sjúklegu sjúkdóma þar til þeir verða langt yfir 100.
„Aðdragandi sýningarinnar var sá að Jonna greindist með sortuæxli í auga og byrjaði hún þá að hekla sína eigin sjúkdóma og segir Jonna að þetta hafi verið einskonar hugleiðsla að geta handfjatlað sortuæxlið sitt og í kjölfarið bjó hún til sjúkdóma annarra og jafnvel útdauða sjúkdóma, Skúlptúrarnir á sýningunni eru m.a. kvíði, kæfisvefn, alzheimer, streptókokkasýking, berklar, svartidauði, klamidia og lungnaþemba.“ Ef sýningargestum finnst vanta tiltekinn sjúkdóm á sýningunni er þeim, að sögn Jonnu, velkomið að skrifa nafnið á honum og skilja eftir og þá verður hann heklaður síðar.
Jonna útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri vorið 1995 og sem fatahönnuður frá Københavns Mode- og Designskole 2011. Sýningin, sem stendur til 31. maí, er opin kl. 14-17 um helgar og kl. 10-16 á virkum dögum.