Borgarráð hefur staðfest samþykktir fyrir nýtt félag sem heitir Þjóðarleikvangur ehf. Fram kemur í greinargerð að hinn 12. apríl sl. hafi verið samþykkt í borgarráði að stofna undirbúningsfélag á vegum Reykjavíkurborgar, ríkisins og KSÍ. Hlutverk félagsins er að undirbúa lokaákvörðun um endurnýjun Laugardalsvallar og í kjölfarið byggingu þeirra mannvirkja sem ákveðið verði að byggja.
Með stofnun félagsins skapist einnig aðstæður til að vinna að öðrum þáttum verkefnisins, m.a. undirbúningi skipulagsbreytinga, kynningarmálum, tillögum um eignarhald og nánari greiningu á afleiddum kostnaði. Hið nýstofnaða félag er einkahlutafélag og heimilisfang þess er að Tjarnargötu 11, Reykjavík.
„Tilgangur félagsins er að undirbúa byggingu þjóðarleikvangs í Laugardal í stað Laugardalsvallar, ásamt byggingu, kaupum og sölu fasteigna og eignarhluta í öðrum félögum, sala þjónustu hvers konar, reka fasteignir sem og að annast lánastarfsemi og annan skyldan rekstur,“ segir m.a. í samþykktum þess.
Hlutafé félagsins er krónur fimm hundruð þúsund og verður hver hlutur að fjárhæð kr. 1 -króna að nafnverði. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og þeir kjörnir á aðalfundi ár hvert. Skal Reykjavíkurborg tilnefna tvo stjórnarmenn til kjörs. Þá skal Íslenska ríkið tilnefna tvo stjórnarmenn til kjörs og Knattspyrnusamband Íslands tilnefna einn til kjörs. Annar þeirra stjórnarmanna er Reykjavíkurborg hefur tilnefnt skal vera stjórnarformaður félagsins. Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. sisi@mbl.is