Í allmörg undanfarin ár hafa komið fram vísbendingar um að afbrotastarfsemi hér á Íslandi sé að verða margslungnari en áður. Dæmi um slíkt eru af ýmsum toga. Við og við birtast fréttir um að lögregla hafi uppgötvað mismunandi afkastamiklar gróðrarstíur fyrir kannabisplöntur. Fyrir nokkrum vikum var töluvert af fréttum í fjölmiðlum um að þjófagengi stunduðu skipuleg innbrot inn á heimili fólks og létu greipar sópa. Jafnvel var talið að þessi gengi væru send hingað í þessu skyni frá öðrum löndum. Manna á meðal ganga sögur um afleiðingar fíkniefnaneyzlu, sem m.a. komi fram í því að ættingjar verði fyrir eignaspjöllum vegna innheimtuaðgerða fíkniefnasala eða jafnvel hótað með yfirlýsingum af þessu tagi: Við vitum í hvaða skóla börnin þín eru.
Margbrotnari afbrotastarfsemi er sjálfsagt fylgifiskur fjölgunar þjóðarinnar, auknum innflutningi fólks frá öðrum löndum, kannski gætir þar líka áhrifa frá bíómyndum en ekki er ólíklegt að þar sem viðskipti með fíkniefni festa rætur verði til margvísleg brotastarfsemi, sem tengist þeim viðskiptum. Hún snýst ekki bara um að meiða annað fólk. Víðtæk viðskipti af þessu tagi, sem ekki þola dagsins ljós kalla á aðgerðir til þess að „þvo“ peninga, skattsvik o.s.frv. Óhjákvæmilega leitar þetta fé inn í hefðbundin og lögleg viðskipti. Ef marka má almannaróm leitar þetta fé gjarnan í steinsteypu.
Það gerist sjaldan, ef það gerist þá yfirleitt, að höfuðpaurar í fíkniefnaviðskiptum náist. Það er oftast að litlu peðin eru gripin og þau þegja þunnu hljóði enda vafalaust ljóst hvað þeirra geti beðið ef ...
Afleiðingarnar fyrir okkar litla samfélag af því að afbrotastarfsemi sem þessi nái að festa sig í sessi og verða ósýnilegur partur af daglegu lífi okkar eru mjög alvarlegar. Þjóðfélagið byrjar að rotna innan frá. Áhrif peninga, sem þannig verða til, eru ekki mikið minni en annarra peninga. Peningar eru eins og vatn. Þeir smjúga alls staðar, var einu sinni sagt.
Erum við að takast á við þetta eða finnst okkur þægilegra að láta sem þessi veruleiki sé ekki til?
Sú skoðun er nokkuð útbreidd, að við séum ekki að takast á við þennan vanda vegna þess að til þess að hafa möguleika á að ná tökum á honum þurfi að verja verulega meiru fé til löggæzlu, fjölga liðsmönnum lögreglunnar og ráða til starfa fólk, sem hefur menntun og þekkingu til að takast á við margvísleg hliðaráhrif, sem snúa að hinu flókna gangverki viðskiptalífs undirheimanna.
En það er ekki nóg að veita meira fé til lögreglunnar og fjölga lögreglumönnum og sérfræðingum á þeirra sviði verulega. Það þarf líka að takast á við aðrar afleiðingar brotastarfsemi.
Nú á tímum er beintenging á milli margvíslegrar afbrotastarfsemi og fíkniefnaneyzlu. Og neyzla fíkniefna leiðir af sér félagsleg og heilsufarsleg vandamál.
Flest bendir til þess að við sem samfélag þurfum að taka rækilega til hendi til þess að takast á við þau vandamál sem leiða af því að fólk ánetjist fíkniefnum. Fjölskyldur, sem í þessu lenda eru örvæntingarfullar og vita ekki sitt rjúkandi ráð. En – það eru dæmi um að það takist að venja fólk af fíkniefnum og koma því á beinni braut á ný.
Eitt er hins vegar víst. Að loka fólk inni í fangelsum er ekki aðferðin til þess. Sennilega er miklu stærri hluti þeirra, sem geymdir eru bak við lás og slá þangað kominn vegna tengsla við fíkniefni en við gerum okkur grein fyrir og er á stöðugri hringferð inn og út.
Og það vekur enn aðra spurningu: Er fangelsun, þ.e. að loka fólk inni í stórum byggingum árum saman með miklum kostnaði vegna húsnæðis, matar og vörzlu, nútímaleg aðferð til þess að refsa fólki?
Eða er þetta kannski nítjándu aldar aðferð til þess?
Auðvitað verður að loka ofbeldismenn og þá sem eru hættulegir öðru fólki inni.
En á það við um fíkla?
Eða svokallaða „hvítflibbaglæpamenn“?
Er hugsanlegra að það sé skynsamlegra og jafnvel ódýrara fyrir samfélagið að takast á við vandamál fíklanna sem heilsufars- og/eða félagslegan vanda?
Og er hugsanlegt að það sé erfiðari refsing fyrir „hvítflibbana“ að missa peningana en að vera lokaðir inni?
Greinarhöfundur hefur ekki fullmótuð svör við þessum spurningum. Þó er ljóst að til þess að lögreglan nái meiri árangri í sinni baráttu þarf hún mun meira fé á ári hverju og fleira fólk.
Það sama á við meiri háttar átak til þess að ná tökum á fíkniefnaneyzlu og afleiðingum hennar.
En er ekki jafnframt kominn tími til að ræða, hvort fangelsun eigi að vera æðsta stig refsingar? Það er ekki ný spurning. Hefur hún ekki alltaf skotið upp kollinum í samfélögum manna eftir að tekið var til við að loka fólki inni vegna afbrota?
Og enn má spyrja: Kemur Schengen hér við sögu?
Þegar lögreglumenn eru spurðir segja þeir gjarnan: Aðild að Schengen er svo mikilvæg fyrir okkur vegna aðgangs að upplýsingum. En getur verið að Schengen hafi galopnað landið fyrir misjöfnum sauðum?
Þessu er varpað hér fram til umhugsunar.
Það er hins vegar tímabært að setja þessi málefni öll á dagskrá þjóðfélagsumræðunnar. Er ekki kominn tími til að Alþingi rökræði þessi mál?
Og hvað segja frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningum?
Afbrot af því tagi, sem hér hafa verið nefnd eru orðin hluti af daglegu lífi fólks, ekki sízt í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu.
Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is