Þegar ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 er skoðaður kemur í ljós að fjárhagur Reykjavíkurborgar er mjög traustur. Rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar, þ.e. borgarsjóðs og fyrirtækja í eigu borgarinnar (t.d. Orkuveitan og Faxaflóahafnir), gekk mjög vel á síðasta ári og skilaði miklum hagnaði. Borgarsjóður sem heldur utan um rekstur borgarinnar skilaði afgangi á fimmta milljarð. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar hefur vaxið í jákvæða átt, úr 30% í árslok 2010 í um 50% við síðustu áramót, þar af hefur eiginfjárhlutfallið vaxið um 6% á kjörtímabilinu.
Á kjörtímabilinu hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir þróttmikilli starfsemi eins og að reisa skóla og íþróttamannvirki, sinnt viðhaldi og stuðlað að kröftugri atvinnustarfsemi m.a. með úthlutun lóða. Allt kjörtímabilið hefur þess verið gætt að treysta fjármálastjórnina til að veita enn betri þjónustu. Það svigrúm sem hefur skapast með traustari fjármálastjórn hefur verið notað m.a. með að lækka skuldir, lækka gjaldskrár (eins og fasteignagjöld) um leið og meira hefur verið veitt til málaflokka eins og í velferðarmál og í skóla- og frístundamál. Sem dæmi má nefna að Reykjavíkurborg leggur hlutfallslega miklu meira til velferðarmála en nágrannasveitarfélög borgarinnar. Um 21% af útgjöldum Reykjavíkurborgar fer til velferðarmála, en sama hlutfall hjá Kópavogsbæ er 15% og hjá Garðabæ er það 13%.
Einar af mikilvægustu skuldbindingum sveitarfélaga og fara vaxandi eru lífeyrisskuldbindingar. Reykjavíkurborg hefur gætt þess að standa að fullu við allar lífeyrisskuldbindingar sínar, ólíkt t.d. hvernig málum er háttað hjá ríkinu og sveitarfélögunum í Kraganum. Sem dæmi má nefna að Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem hefur gert upp áfallnar skuldbindingar þar á meðal framtíðarskuldbindingar við Lífeyrissjóðinn Brú, en á síðasta ári greiddi borgin lífeyrissjóðnum um 15 milljarða.
Í stuttu máli er fjárhagur Reykjavíkurborgar traustur. Borgin hefur lækkað skuldir undanfarin ár, lækkað gjaldskrár, ýtt undir kröftuga atvinnustarfsemi og reksturinn hefur skilað afgangi. Þetta eru allt skýr merki um góða fjármálastjórn.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.