„Líkt og heiti sýningarinnar gefur til kynna þá er viðfangsefni Sigrúnar á sýningunni hverir og gróður. Þar má sjá hvernig gagnvirkni og skyntækni er tvinnuð saman og áhorfendum boðið að taka þátt. Með eigin þátttöku ná þeir að upplifa fjölmarga möguleika þessarar tækni í samspili lita, hreyfinga og hljóðs. Inn á milli gagnvirkra verka og skúlptúrs innsetninga eru líka málverk sem gera áhorfendum kleift að njóta þeirrar fagurfræði sem til verður í umbreytingunni milli hefðbundinna og tæknivæddra mynda,“ segir í tilkynningu.
Sigrún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978-82, framhaldsnám við Ríkislistaakademíuna í Hollandi 1982-86 og fjölmiðlafræðideild Québec Háskólans í Montreal, Kanada, þaðan sem hún lauk meistaragráðu árið 2005. Sýningin stendur til 6. ágúst. Safnið er opið alla daga kl. 12-18 og er aðgangur ókeypis.