Eimskip Markaðsvirði hefur dregist saman um fjórðung síðan í nóvember.
Eimskip Markaðsvirði hefur dregist saman um fjórðung síðan í nóvember. — Ljósmynd/Larus Karl Ingason
Tap Eimskips á fyrsta fjórðungi ársins nam 1,6 milljónum evra, eða um 198 milljónum króna á núverandi gengi, samanborið við 200 þúsund evra hagnað á sama tímabili árið 2017.

Tap Eimskips á fyrsta fjórðungi ársins nam 1,6 milljónum evra, eða um 198 milljónum króna á núverandi gengi, samanborið við 200 þúsund evra hagnað á sama tímabili árið 2017. Tekjur félagsins hækkuðu um 8,4% milli ára en þær námu 155,5 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi. Tekjur félagsins jukust einkum vegna aukins flutningamagns í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi og í flutningsmiðlun.

Rekstrargjöld hækkuðu um 14,1 milljón evra milli ára og námu 148,3 milljónum evra á fyrsta fjórðungi. Hækkun rekstrargjalda umfram aukningu í tekjum má einkum rekja til kostnaðar við tvö ný skip sem bæst hafa í flotann frá sama tímabili í fyrra. Rekstrargjöld hækkuðu einnig vegna hærri launakostnaðar, aukins olíukostnaðar og kostnaðar í tengslum við skil á leigugámum.

Magn í áætlunarsiglingum Eimskips á Norður-Atlantshafi jókst um 4% á fjórðungnum, en innflutningur til Íslands var undir áætlun, einkum vegna samdráttar í bílainnflutningi.

Skýringar óljósar

Jóhann Viðar Ívarsson hjá hlutabréfagreiningu IFS segir tvennt neikvætt við uppgjörið. „Það er annars vegar í grunninn hvað arðsemin er lág. Magn- og tekjuvöxturinn í eigin flutningum félagsins er fínn, og magnaukning í sendingarþjónustu einnig en það er greinilega eitthvað að í þeim hluta starfseminnar því tekjuaukning af flutningaþjónustu er talsvert undir magnaukningunni.“ Hann segir jafnframt áhyggjuefni hver skýring félagsins á þessu er og hversu óskýr hún er. „Hún er að sendingarþjónusta í Afríku hafi gengið illa vegna gjaldeyrisvandamála eða viðskiptadeilna á svæðinu, allt eftir því hvaða tilkynningu frá félaginu maður les. Það kemur óþægilega á óvart að það sé þetta svæði sem veldur því að þessi fjórðungur sé vonbrigði fyrir alla samstæðuna.“

Snorri Jakobsson hjá Capacent segir að töluverður mótvindur sé í rekstri Eimskips. Hann nefnir hækkandi olíuverð, styrkingu krónunnar gagnvart dollar og óróa á íslenskum vinnumarkaði. „Við erum að sjá sömu þróun bæði hjá Eimskip og Icelandair þar sem til viðbótar við almenna óvissuþætti hjálpar félögunum ekki að eiga við íslenskan vinnumarkað og íslenska krónu.“

Fyrsti ársfjórðungur skilar yfirleitt lægstri framlegð í rekstri Eimskips, en það á almennt við um skipafélög á heimsvísu. Síðastliðin fimm ár hefur fyrsti ársfjórðungur skilað að meðaltali 16,5% af afkomu ársins. Afkomuspá Eimskips gerir ráð fyrir að EBITDA-hagnaður ársins verði á bilinu 57 til 63 milljónir evra.

Eins og áður hefur komið fram, þá tilkynnti Yucaipa, stærsti eigandi Eimskips, í lok nóvember um möguleika á sölu á 25,3% eignarhlut sínum í félaginu. Síðan þá hefur markaðsvirði félagsins lækkað um rúmlega fjórðung. steingrimur@mbl.is