Karl Bretaprins leiðir Meghan Markle síðustu metrana upp að altarinu í dag þegar hún gengur að eiga son hans, Harry prins. Til stóð að faðir brúðarinnar, Thomas Markle, leiddi hana inn kirkjugólfið en tilkynnt var að hann gæti það ekki vegna þess að hann hefði þurft að fara í hjartaaðgerð.
Fyrr í vikunni var skýrt frá því að Markle hefði sviðsett myndatöku af sjálfum sér í samráði við ljósmyndara slúðurtímarits og hann sagðist skammast sín svo mikið að hann ætlaði ekki að fara í brúðkaup dóttur sinnar. Hermt er að hann hafi fengið jafnvirði rúmra 14 milljóna króna fyrir sviðsetninguna. Fréttavefurinn TMZ kveðst hafa heimildir fyrir því að Markle hafi samþykkt myndatökuna með það fyrir augum að bæta ímynd sína, koma fram „sem ástríkur faðir að búa sig undir brúðkaup dóttur sinnar, en ekki sem ómannblendin fyllibytta“.
Fjölmiðlar í Bretlandi hafa ennfremur skýrt frá því að Meghan hafi ekki boðið hálfbróður sínum og hálfsystur í brúðkaupið. Hermt er að hálfsystirin sé á sjúkrahúsi eftir að hafa lent í bílslysi á flótta undan ljósmyndurum slúðurblaða. Þótt hálfbróðurnum hafi ekki verið boðið í brúðkaupið er hann sagður hafast við í grennd við Windsor-kastala þar sem brúðhjónin verða gefin saman.
Hirðinni brást bogalistin
Allur þessi vandræðagangur virðist hafa komið hirðinni í opna skjöldu og bresk dagblöð hafa gagnrýnt starfsmenn Kensington-hallar, bústaðar prinsins, fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir „Markle-klúðrið“, eins og það er kallað.„Starfsmönnum Kensington-hallar brást bogalistin í samskiptunum við tengdafjölskylduna,“ hefur fréttaveitan AFP eftir blaðamanninum og rithöfundinum Penny Junor, sem hefur skrifað bækur um ævi Karls krónprins, Díönu prinsessu, Vilhjálms prins og Harry. „Tengdafjölskyldan er orðin stærri frétt en sjálft brúðkaupið og það er sorglegt.“ Junor segir að Meghan sé vön því að vera í sviðsljósi fjölmiðla en foreldrar hennar og systkin ekki. „Hirðin í Kensington-höll hefði átt að senda einhvern yfir Atlantshafið til að hjálpa þeim, veita þeim ráðgjöf og stuðning, búa þau undir brúðkaupið og allt sem því fylgir.“
Hermt er að Meghan taki það nærri sér að faðir hennar skuli ekki vera viðstaddur brúðkaupið. Í tilkynningu frá Kensington-höll sagði í gær að brúðurin hefði beðið Karl krónprins um að ganga með sér upp að altarinu og það væri honum sönn gleði að geta boðið hana velkomna í fjölskylduna með þeim hætti. Skýrt var þó frá því að Meghan myndi ganga ein inn kirkjugólfið, en Karl tæki þar á móti henni og leiddi hana síðustu metrana að altarinu.
Ennfremur var skýrt frá því að afi brúðgumans, Filippus drottningarmaður, sem er 96 ára, yrði viðstaddur brúðkaupið þótt hann hefði gengist undir skurðaðgerð á mjöðm nýlega. bogi@mbl.is