Ellefu af átján lögheimilisskráningum í Árneshrepp á Ströndum hafa verið felldar niður af Þjóðskrá Íslands. Skráningarnar voru gerðar á tímabilinu 24. apríl til 5. maí samkvæmt tilkynningum um flutninga í Árneshrepp.

Ellefu af átján lögheimilisskráningum í Árneshrepp á Ströndum hafa verið felldar niður af Þjóðskrá Íslands. Skráningarnar voru gerðar á tímabilinu 24. apríl til 5. maí samkvæmt tilkynningum um flutninga í Árneshrepp. Ástæða niðurfellingar lögheimilisskráninganna er sú að þær eru taldar tilhæfulausar. Látið hefur verið að því liggja að þær hafi verið gerðar í því skyni að breyta afstöðu hreppsnefndarinnar til byggingar Hvalárvirkjunar.

„Það voru taldar yfirgnæfandi líkur á að þetta fólk hefði ekki fasta búsetu á viðkomandi stöðum í skilningi laga um lögheimili,“ sagði Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár, um málið. „Þetta byggist á þeim gögnum sem lágu fyrir, m.a. lögregluskýrslum. Það er misjafnt hvað liggur fyrir í hverju máli, en eins og í öllum málum byggist þetta á tilkynningum og upplýsingum frá aðilum málanna og utanaðkomandi upplýsingum einnig, t.d. skýrslum lögreglu.“

Niðurfelling skráninganna hefur þá afleiðingu að umsækjendurnir verða aftur skráðir á þau lögheimili sem þeir höfðu fyrir.