Í Vesturbænum
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Það liggja einhverjar tilfinningar hingað og það er alltaf gaman að koma. Ég var mikið hérna þegar ég var yngri og þetta var nánast mitt annað heimili. Mér líður vel hérna,“ sagði Willum Þór Willumsson sem átti góðan leik fyrir Blika í 1:1-jafnteflinu við KR í Vesturbænum í gærkvöld, í 4. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu. Jafnteflið þýðir að Blikar eru enn taplausir á toppi deildarinnar með 10 stig, tvöfalt fleiri en KR sem hefur átt erfiða leikjadagskrá í upphafi móts.
Willum er eins og flestum er kunnugt sonur Willums Þórs Þórssonar, sem gerði KR tvívegis að Íslandsmeistara snemma á öldinni og stýrði liðinu á ný seinni hluta sumars 2016 og tímabilið 2017. Sá yngri, þessi hávaxni en flinki kantmaður, virtist kunna vel við sig í Frostaskjóli í gær og kláraði færið sitt af yfirvegun úr einni af skyndisóknum Blika um miðjan seinni hálfleik. KR var meira með boltann í leiknum og verðskuldaði jöfnunarmarkið sem kom í kjölfarið.