Viljayfirlýsing Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, Una Dóra Copley og Scott Jeffries við undirritun viljayfirlýsingarinnar á heimili hjónanna í East Village í New York. Listamaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir – Shoplifter stendur fyrir aftan þau, við eitt hinna fjölmörgu málverka eftir Nínu Tryggvadóttur á heimilinu.
Viljayfirlýsing Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, Una Dóra Copley og Scott Jeffries við undirritun viljayfirlýsingarinnar á heimili hjónanna í East Village í New York. Listamaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir – Shoplifter stendur fyrir aftan þau, við eitt hinna fjölmörgu málverka eftir Nínu Tryggvadóttur á heimilinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Samþykkt borgarráðs á fimmtudag um viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og hjónanna Unu Dóru Copley og Scott Jeffries, um að sett verði á fót listasafn sem beri nafn Nínu Tryggvadóttur (1913-1968), móður Unu Dóru, hefur vakið verðskuldaða athygli. Borgin mun fá hið viðamikla listaverkasafn Nínu að gjöf, auk verka eftir eiginmann hennar, lista- og vísindamanninn Al Copley (1910-1992), og verk eftir aðra listamenn sem þau áttu. Vel á annað þúsund listaverk alls.

Viljayfirlýsingin felur í sér að Una Dóra og Scott arfleiða Reykjavíkurborg að fasteignum sínum á Manhattan og í Reykjavík.

Safnið í nafni Nínu á að verða sjálfstæð eining, með sjálfstæðri stjórn og framkvæmdastjóra. Í safninu munu verða fastasýningar á verkum Nínu auk annarrar fjölbreyttrar starfsemi á sviði myndlistar. Stefnt er að því að finna safninu stað í Hafnarhúsinu og veitti borgarráð borgarstjóra heimild til að undirrita viljayfirlýsingu á milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna um kaup á eignarhlut þeirra í Hafnarhúsinu. Miðað skal við að 2/3 hlutar þess rýmis sem keypt verður af Faxaflóahöfnum verði nýttir undir safn Nínu Tryggvadóttur og Listasafn Reykjavík, sem þegar er í stórum hluta hússins, fái aukið pláss.

Nína var einn merkasti myndlistarmaður þjóðarinnar á liðinni öld, hvort sem horft er til fígúratífra verka hennar frá fjórða og fimmta áratugnum, mósaíkverka eins og í Skálholtskirkju og á Tollhúsinu, eða áhrifamikilla abstrakverkanna frá seinni hluta ferilsins.

„Flytja Nínu aftur heim“

„Þetta er stórmerkilegur viðburður í íslenskri menningarsögu og frábært að fá tækifæri til að flytja Nínu aftur heim,“ segir Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, en hann undirritaði viljayfirlýsinguna með Unu Dóru og Scott í New York. „Gjöf þeirra Unu Dóru og Scott er höfðingleg og ég efast ekki um að Reykjavíkurborg muni gera allt til að sýna Nínu Tryggvadóttur þá virðingu sem hún á skilið. Með þessari höfðinglegu gjöf skapast jafnframt einstakt tækifæri til að gera Hafnarhúsið að listamiðstöð sem á eftir að auðga menningarlíf Íslendinga enn frekar og efla miðborgina.“

Sigurður Björn segir hjónin hafa komið að máli við borgaryfirvöld síðasta haust, með tillögu um safn með verkum Nínu, og síðan hafi hún verið rædd. Hjónin hafi talað um að þau vildu „flytja Nínu aftur heim“.

Hann segir þetta mikla gjöf og það felist ábyrgð í því að taka við henni. „Þetta verður sjálfstæð stofnun með sjálfstæðri stjórn,“ svarar hann þegar spurt er hvort safnið með verkum Nínu verði hluti af Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. „Hún hefur listrænt og fjárhagslegt sjálfstæði.“

Aðilar viljayfirlýsingarinnar gefa sér ríflega eitt ár til þess að ganga frá endanlegum samningum um fyrirkomulag gjafarinnar og stofnun safnsins. Una Dóra og Scott hyggjast arfleiða borgina að fasteignum sínum að sér gengnum og styður það rausnarlega við stofnun safnsins.

„Fyrsti hluti verkanna kæmi þegar húsnæðið yrði tilbúið og miðað er við að það verði um 1.500 verk sem sérstaklega endurspegli feril Nínu alveg frá námsárum; glerlistaverk, teikningar, málverk, og geti staðið undir föstum sýningum sem og rannsóknum.“ Með tímanum kæmi afgangur verkanna í safnið, eftir Nínu, Al Copley og aðra. „Við leggjum öll áherslu á að þetta safn muni ekki bara sýna verk Nínu Tryggvadóttur og Al Copley heldur verður þetta lifandi, sterk og öflug listamiðstöð með jafnt sýningum genginna listamanna sem samtímalistamanna,“ segir Sigurður Björn.