[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verk eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson. Leikstjórn: Ragnar Kjartansson. Tónlist: Kjartan Sveinsson. Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikmynd: Ragnar Kjartansson. Hljómsveit: Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Verk eftir Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson. Leikstjórn: Ragnar Kjartansson. Tónlist: Kjartan Sveinsson. Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikmynd: Ragnar Kjartansson. Hljómsveit: Sinfóníuhljómsveit Íslands. Útfærsla leikmyndar: Axel Hallkell Jóhannesson og Jana Wassong. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Dramatúrg: Henning Nass. Leikari: Hilmir Snær Guðnason. Aukaleikarar: Adolf Smári Unnarsson, Tómas Helgi Baldursson og Aron Martin de Azevedo. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins miðvikudaginn 16. maí 2018.

Sá óvenjulegi viðburður átti sér stað í vikunni að tvær helstu og elstu menningarstofnanir þjóðarinnar tóku sig til og fluttu sameiginlega verk, eða öllu heldur gjörning, á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Ragnar Kjartansson myndlistarmaður og Kjartan Sveinsson tónskáld, áður meðlimur Sigur Rósar, höfðu áður unnið saman að samskonar gjörningaverkum í Þýskalandi en nú var kominn tími til að fá mennina heim. Það er ekki laust við að einhverskonar leiksýning hafi byrjað strax við undirritun samninga í fyrrahaust, en af myndum að dæma mátti greina eftirvæntingu þeirra félaga sem með látbragði neru saman höndum með stríðnissvip, líkt og þar færu loddarar sem ætluðu að snúa menningarlífinu hér heima á hvolf. Eftir uppklapp á frumsýningu stukku þeir svo af sviðinu í svipuðum karakter og létu sig hverfa.

Hvar sér maður svona kúlissleikhús í dag? Tilfinningin var á stundum sú að þar færi grunnskólasýning en þó vissulega í hæsta gæðaflokki. Sýningin var á sinn hátt afturhvarf til upphafsára Þjóðleikhússins – risavaxin máluð leiktjöld þvert yfir svið og sviðsetningin natúralistísk. Sinfóníuhljómsveit Íslands var auk þess mætt á þann stað þar sem hún hóf leik fyrir rúmum 60 árum, að þessu sinni ofan í gryfju, nánast í fósturstellingu.

Verkið, eins og það var kallað í leikskrá, er gjörningur, einn af mörgum sem Ragnar Kjartansson hefur sett upp víða um veröld við mikinn orðstír. Ekkert hlé var á sýningunni; andartakið var fangað í rauntíma. Leiktjaldið, handmálað, var yfirgengilegt, rómantískt náttúrulandslag; ægifegurð, fjallstindar, sólarlag innan um magnþrungið skýjafar þar sem mátti greina stóran ránfugl. Eina lífið á sviðinu, auk (her)mannsins, var sólin sem gekk til viðar meðan sýningin varði. Ef einhverjum leiddist biðin eftir dauðanum á sviðinu gat hinn sami fylgst með blóðrauðu sólarlaginu fjara út og vitað að þá væri sýningin brátt á enda. En því fór fjarri að alla hafi syfjað þó söguþráðinn hafi vantað.

Endurtekningin – „Stríð er leikhús sem leikur leikhús“ stóð í vandaðri leikskrá verksins en þar var jafnframt svarið af sér að gjörningur þeirra Ragnars og Kjartans væri afbygging á leikhúsi eða tónsmíðum, heldur væru þeir að leika sér í brunarústunum sem byltingar tuttugustu aldarinnar skildu eftir á þeim stað þar sem áður stóðu leikhús, hvar leikin voru leikrit eða spilaðar sinfóníur. Útkoma þeirra félaga varð einhverskonar sinfónía og einhverskonar leikhús. Sögusviðið minnti sterkt á miðevrópskan vígvöll á 18. eða 19. öld. Búningarnir voru að sögn unnir upp úr flíkum úr búningasafni Þjóðleikhússins, úr leikverkunum Kóperník höfuðsmanni og Þremur systrum , sem sé leiksögulegir án þess að vera á neinn hátt sögulegir enda enginn söguþráðurinn.

Það veit sá sem hefur prófað hæga upprisu í einn og hálfan klukkutíma á leiklistarnámskeiði að það er stórmál að sýna, öllu heldur líkamna, hægan dauða í einni samfelldri hendingu. Eftir stuttan forleik heyrðust búkhljóð og loks skreið Hilmir Snær Guðnason emjandi fram, reis upp eftir langa mæðu, studdi sig við riffil með áföstum byssusting, ákallaði almættið, grét, syrgði fallna félaga, allt þar til hann steig á púðurkerlingu og dó. Allavegana heyrðist hvellur og reykur steig upp. Nokkurn veginn þannig leið senan áfram óáreitt í heilan klukkutíma. Tónlistin var látlaus, nánast bernsk og einlæg í einfaldleika sínum; langar hendingar með stórum hljómum sem risu og hnigu gegnum verkið undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar og hélt sviðshluta verksins við efnið. Tónverk Kjartans hljómaði sem wagnerískur niður, seiður – í senn dáleiðandi og svæfandi en um leið fallegur og hugvekjandi löngu eftir að sviðstjöldin féllu. Ljós ofan úr rjáfri lýstu á hljómsveitina verkið á enda sem tók því miður fókus af því sem fram fór á sjálfu sviðinu. Ef til vill var þörf á lýsingu við spilamennskuna nema þörf var á að undirstrika þátt hljómsveitarinnar í verkinu.

Var verkið epískt? Nei. Engum söguþræði var til að dreifa, en andartakið, mómentið, var fangað í rauntíma í einni hendingu sem getur reynst mörgum Íslendingnum á sögueyjunni snúið að lifa með. Það má spyrja sig hvort einhver vissi hverju von var á í Þjóðleikhúsinu á miðvikudagskvöldið. Verkið var í raun hreinasta afbragð og uppfærslan að öllu leyti fagmannlega unnin og flutt. Aldrei vottaði fyrir áreynslu og hermaðurinn líkamnaðist á áhrifaríkan hátt í Hilmi Snæ sem gætti þess vel að leika aldrei. Útkoman, þegar allt er vegið og metið, er að sjónarspilið hafi heppnaðist betur en Ragnar Kjartansson hafði þorað að vona ef marka má viðtöl fyrir sýninguna, en hann hélt að fólki ætti eftir að leiðast, að klukkutíma gluggi yrði á við þrjá. Allavega leiddist ekki undirrituðum, ekki heldur sessunautnum sem lætur ekki bjóða sér neitt flipp og yfirborðsmennsku.

Það verður ekki hjá því komist að minnast á höfundareinkenni Ragnars sem litar allt verkið – sonur leikara og leikstjóra sem dvaldi ungur löngum stundum við leikæfingar úti í sal eða baksviðs, sá ungur að árum í gegnum leikinn og hreifst af endurtekningunni; er þetta einhverskonar trámi sem Ragnar er að vinna svona snilldarlega vel úr? Í texta leikskrár var reynt að botna þetta allt saman: „Tilfinningarnar sem Stríð vekur með okkur eru ekki tilfinningar sem vísa skýrt til reynslu okkar af lífinu heldur frekar og jafnvel einvörðungu til reynslu okkar af leikhúsi...“ og spurt var í framhaldinu: „Eru leikhústilfinningar ekki líka tilfinningar?“ Svari nú hver fyrir sig, en í prinsippinu, jú.

Ingvar Bates

Höf.: Ingvar Bates