Í Fossvogi
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Grindavík varð í gær fyrsta liðið til að leggja Víkinga að velli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar. Aron Jóhannsson skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri í fremur daufum leik, sem var liður í 4. umferðinni.
Markið kom eftir ansi vel heppnaða skyndisókn, augnabliki eftir að Víkingar voru hársbreidd frá því að komast yfir hinum megin. Sölvi Geir Ottesen gerði sig þá líklegan í markteig gestanna en kom boltanum ekki yfir línuna. Grindvíkingar nýttu sér götin í vörn Víkinga hinum megin og refsuðu.
Atvikin voru ansi dæmigerð fyrir leikinn því flest færi Víkinga voru eftir föst leikatriði á meðan flest færi Grindvíkinga komu eftir skyndisóknir. Þess á milli gerðist lítið í leik sem var ekki mikið fyrir augað. Grindvíkingar spiluðu af mikilli skynsemi og gáfu fá færi á sér, sérstaklega eftir markið, og sýndu mikinn styrk með því að ná í þrjú stig þrátt fyrir að eiga ekki sinn besta leik. „Þetta var eins og að lenda á vegg,“ heyrðist í einum Grindvíkingnum segja um Sölva Geir eftir leikinn. Grindavík nýtti sér vel eina af fáum sóknum sínum þar sem hann var hvergi sjáanlegur, enda vissulega auðveldara að skora þegar ekki er veggur fyrir.