Þegar saga Siglufjarðar er skoðuð kemur eðlilega upp í hugann sjálft síldarævintýrið í nyrsta kaupstað landsins. Um það ævintýri hefur verið mikið ritað á liðnum áratugum. Áhrif síldarsöltunar á Siglufirði voru gífurlega mikil, hún hafði mikil áhrif á allt atvinnulíf þjóðarinnar um langan tíma. Oft er það nefnt að ekki hafi verið hægt að loka fjárlögum íslenska ríkisins á Alþingi fyrr en rekstrarniðurstaða Síldarverksmiðja ríkisins lá fyrir. Á mynd einni, sem var tekin á Siglufirði á síldarárunum, má sjá 427 síldarbáta í landlegu. Einstakt tákn um blómlegt atvinnulíf sem hafði einnig í för með sér sterkt félags- og menningarlíf á staðnum.
Lífið á Siglufirði á síldarárunum var einstakt, ekki aðeins atvinnulífið heldur mannlífið allt. Segja má að sérstök menning hafi skapast, mótuð af Siglfirðingum sjálfum og af fólki frá öðrum norrænum þjóðum.
Síðan hvarf síldin og erfiðir tímar fóru í hönd. Hægt og bítandi unnu Siglfirðingar sig út úr þeirri kreppu. Skuttogarar tóku að sigla inn í „Þormóðs ramma fagra fjörð.“ Atvinnulífið styrktist á ný, skref fyrir skref. Segja má að stundaskil hafi orðið þegar Héðinsfjarðargöngin voru tekin í notkun í október 2010. Með tilkomu ganganna opnuðust nýjar leiðir til uppbyggingar á öflugu atvinnulífi á Siglufirði. Það er á engan hallað þegar Siglfirðingurinn Róbert Guðfinnsson athafnamaður er nefndur í því sambandi og hin miklu áhrif hans þar á stað.
Siglufjörður hefur á undanförnum árum fengið á sig nýja ásýnd. Er orðinn að einum snyrtilegasta og fallegasta stað landsins okkar góða með allri sinni náttúrufegurð. Þar blómstrar gott mannlíf og saga liðinna tíma er í heiðri höfð. Merki um það eru m.a. Síldarminjasafnið, sem hefur hlotið innlend og erlend verðlaun, þar á meðal Evrópsku safnverðlaunin á árinu 2004 á sviði iðnaðar og tækni, og Þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds.
Þegar fjallað er um Siglufjörð kemur eðlilega strax upp í hugann nafn séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds og fyrsta heiðursborgara Siglufjarðar. Auk þess að þjóna sem sóknarprestur Siglufjarðarprestakalls, sem áður var nefnt Hvanneyrarprestakall, í ein 47 ár, vann hann mikið starf fyrir Siglufjörð, staðinn sem hann unni svo mjög.
Hann var kjörinn oddviti í hreppsnefnd og síðar í bæjarstjórn. Við fyrstu kosningu í bæjarstjórn í júní 1919, árið eftir að Siglufjörður fékk kaupstaðarréttindi, komu fram tveir listar: A-listi studdur af kaupmönnum og útgerðarmönnum og B-listi studdur af verkamönnum. Séra Bjarni var á báðum listum og fékk 136 og hálft atkvæði. Sá sem næstur kom af frambjóðendum fékk 70 atkvæði.
Séra Bjarni vann að mörgum framfaramálum í bæjarfélaginu. Má þar m.a. nefna vatnsveitu, rafveitu, byggingu nýrrar kirkju og skóla. Hann er höfundur aðalskipulags Siglufjarðarkaupstaðar. Þekkt er hve „beinar og hornréttar“ götur eru á Siglufirði. Skipulagsfræðingar eru á því að skipulagið hafið verið og sé enn þann dag í dag með því besta sem þekkist hér á landi. Séra Bjarni var einn af forvígismönnum Sparisjóðs Siglufjarðar sem var um langan tíma elsta peningastofnun landsins.
Siglfirðingar kunnu vel að meta starf hans að bæjarmálum en vænst þótti séra Bjarna um þegar bæjarstjórnin gerði hann að fyrsta heiðursborgara Siglufjarðar. Í bréfi bæjarstjórnarinnar til séra Bjarna 14. október 1936 segir m.a.: „Um mörg ár hafið þér staðið fast í fylkingarbrjósti um framfaramál byggðar vorrar og stjórnað málum hennar, og yður, meir en nokkrum einum manni öðrum, er að þakka að Siglufjörður fékk bæjarréttindi með lögum nr. 30/1918. Yður ber því með réttu heiðursnafnið conditor urbis – höfundur Siglufjarðar – og viljum vér því veita yður heiðursvott þann sem vér dýrstum ráðum yfir, með því að kjósa yður heiðursborgara bæjarfélags vors.“
Síðar var séra Bjarni heiðraður á margan hátt. Var gerður að heiðursprófessor og doktor við Háskóla Íslands. Einnig hlaut séra Bjarni riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu. Með þeirri viðurkenningu var honum þakkað fyrir framlag sitt til tónlistar þjóðarinnar. Þar má nefna m.a. Þjóðlagasafn hans, sem fyrrverandi kennari minn við Kennaraskóla Íslands, Jón Ásgeirsson tónskáld, segir að sé merkasta rit íslenskrar tónlistarsögu. Hér má bæta við Hátíðasöngvum hans, sem kirkjan nefnir Hátíðalitúrgíu og er sungin í kirkjum landsins á stórhátíðum. Ekki þarf að geta þess að séra Bjarni samdi auk þess fjöldamörg sönglög, sem hafa lifað með þjóðinni, eins og Kirkjuhvol og Sólsetursljóð svo einhver séu nefnd.
Hátíðarræðu sinni 20. maí 1918, fyrir hundrað árum, lauk séra Bjarni með þessum orðum: „Og svo vil ég að lokum biðja alla að hrópa nífalt húrra fyrir Siglufirði, bæði kauptúninu, sveit og fólki. Látum hnjúkana hér í kring, sem eru óbreyttir eins og 1818 og hafa staðið vörð kringum fjörðinn okkar þessi hundruð ár – og miklu lengur – látum þá bergmála okkar nífalda húrra á þessum merkisdegi. Við berum fram innilega ósk og von um það, að himnafaðirinn blessi Siglufjörð á komandi tíð, alla þessa sveit og alla íbúa hennar. Blessist og blómgist Siglufjörður á komandi öld. Hann lifi!“
Við þessi tímamót tökum við, sem viljum vegsemd Siglufjarðar sem mesta, heilshugar undir orð séra Bjarna Þorsteinssonar, fyrsta heiðursborgara Siglufjarðar.
Höfundur er fv. sóknarprestur og bæjarfulltrúi á Siglufirði.