Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, opnaði nýjan vef sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi, á Fosshóteli á Húsavík vikunni. Vefurinn er á slóðinni gaumur.is og þar má fylgjast með þróun mála á sviði samfélags, umhverfis og efnahags á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri til og með Tjörnesi í austri.
Gögn til rannsókna
„Á vefnum geta notendur nálgast upplýsingar um þróun samfélags, umhverfis og efnahags á framangreindu svæði, sem talið er að muni verða fyrir hvað mestum áhrifum af uppbyggingu og starfsemi Þeistareykjavirkjunar, iðnaði á Bakka og auknum umsvifum í ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningu Einnig er að finna á vefnum ýmsan fróðleik um sjálfbæra þróun. Meðal upplýsinga sem eru aðgengilegar á vefnum má nefna mannfjölda svæðisins, tekjur íbúa, samgöngur, lífríki, fasteignamarkað og hag einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga.Í tilkynningu segir að aðstandendur verkefnisins bindi vonir við að þau gögn sem aflað verður og birt á vegum verkefnisins muni nýtast meðal annars við rannsóknir og kennslu á öllum skólastigum, stefnumótun opinberra aðila og atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Aðstandendur verkefnisins eru Landsnet, Landsvirkjun, PCC, fulltrúar ferðaþjónustuaðila, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri ásamt sveitarfélögunum Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnisstjórn. Vefurinn verður í stöðugri þróun og nýjar upplýsingar veðra birtar reglulega. erla@mbl.is