Tafir á framkvæmdum vegna skipulags og leyfisveitinga eru umfjöllunarefni greinar eftir Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í Viðskiptamogganum í fyrradag. Sigurður bendir á að of fáar íbúðir hafi verið reistar á undanförnum árum og það hafi leitt til mikilla verðhækkana á húsnæði. Þessar verðhækkanir séu langt umfram launahækkanir og ógni ekki einungis efnahagslegum stöðugleika, heldur félagslegum stöðugleika. Kaupmáttur hafi aukist verulega undanfarin misseri, en sívaxandi húsnæðiskostnaður samfara lítilli uppbyggingu íbúða skekki myndina. Telur Sigurður að tafir í skipulagi og hjá byggingafulltrúum sveitarfélaga og kröfur af ýmsu tagi valdi samfélaginu kostnaði, sem hugsanlega hlaupi á milljörðum króna á ári þegar allt sé talið.
Morgunblaðið hefur að undanförnu flutt fréttir þar sem verktakar kvarta sáran undan seinagangi. Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar, sagði í viðtali fyrr í mánuðinum að bíða hefði þurft í 11 mánuði eftir því að Reykjavíkurborg afgreiddi eignaskiptalýsingu á Bríetartúni 9-11. Íbúðirnar verði vegna þessa og annarra tafa afhentar mun síðar en til hefði staðið. Þessum töfum fylgdi mikill vaxtakostnaður og íbúðirnar yrðu fyrir vikið dýrari en ella.
Ekki er langt síðan umboðsmaður borgarbúa í Reykjavík fjallaði um seinaganginn hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Í áfangaskýrslu hans kom fram að hann hefði þurft að bíða að meðaltali í um 80 daga eftir svörum frá sviðinu, en sambærilegur svartími hjá öðrum sviðum hefði verið um 13 dagar. Þar var eitt mál rakið þar sem borgarbúi hafði sent inn fyrirspurn vorið 2016. Svar hafði enn ekki borist þegar áfangaskýrslan kom út í febrúar á þessu ári og hafði umboðsmaður þó reynt að leggja borgarbúanum lið.
Borgin sjálf er ekki undanþegin seinaganginum. Sigurður Hannesson bendir á það í grein sinni að þegar Reykjavíkurborg stóð fyrir breytingunni á húsnæðinu á Hlemmi til að búa til aðstöðu fyrir veitingamenn var það sama uppi á teningnum. „Tafir á veitingu byggingaleyfis, m.a. vegna skipulagsmála, ásamt öðrum ástæðum, leiddu til þess að þetta verkefni tafðist um nærri ár, upphaflega stóð til að hefja starfsemi haustið 2016 en það tókst ekki fyrr en í ágúst 2017,“ skrifar Sigurður. „Með öðrum orðum, þá reyndu borgaryfirvöld á eigin skinni hversu óskilvirkt kerfið er.“
Auðvitað er það að vissu leyti til fyrirmyndar að borgin fá sömu trakteringar og aðrir, en um leið ætti það að opna augu þeirra, sem fara með völdin, fyrir vandanum fyrst raunir almennings duga ekki til.
Vandann má finna um allt land, en áhrifin eru mest í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu af þeirri einföldu ástæðu að þar er mest um framkvæmdir.
Nú er aðeins vika í kosningar og því er full ástæða til að halda þessum málum á lofti og þrýsta á um að þjónustan verði bætt, áhersla lögð á að auka hagkvæmni og reynt að draga úr þeim óþarfa viðbótarkostnaði, sem kerfið veldur. Skipulagsmál ber vissulega að taka alvarlega og þar má ekki veita afslátt. Verktakar eiga ekki að komast upp með að stytta sér leið.
Hins vegar á kerfið að vera skil- og hraðvirkt. Það á ekki að vera eins og hindrunarhlaup þegar ráðist er í framkvæmdir þannig að við hvert fótmál spretti fram nýjar kröfur og skilyrði, þröskuldar og tálmar. Kerfið á að þjóna almenningi, en ekki almenningur kerfinu. Þá keyrir um þverbak þegar óskilvirkni og seinagangur kerfisins leiðir til þess að húsnæði verður dýrara í en ella og hefur áhrif á lífskjör.