Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Þéttur botn og þrýstinn er.
Þetta er kot í hreppnum.
Einnig þjó á þegnum ver.
Þetta er tota á leppnum.
Helgi Seljan svarar: „Eftir hugans japl og jaml og fuður varð þetta til:
Rímið heimtar rokna skass,
reynist vindur úti hvass.
Ef þetta er ekki rækalls rass
rétt og slétt ég mæli pass.
Helgi R. Einarsson á þessa lausn:
Ég vísnahornið stoltur styð,
þótt stundum segi pass.
Hér kotrassa ég kannast við,
kvenna og lepparass.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Rass er botn á rekkum hér.
Rass er kot í hreppnum.
Rass á buxum rekka er.
Rass er tota á leppnum.
Þá er limra:
Hann Simmi í flokki fimra
var fótunum sífellt að mimra
og rann svo á rassinn,
rækarls hjassinn,
en þetta er ljómandi limra!
Og loks nýja gáta eftir Guðmund:
Sólin guðar gluggann á,
gátu nýja semja má,
vík ei þeirri venju frá
í Vísnahornið sendi þá:
Betri en kelda ávallt er.
Oft við torfverk nýtist mér.
Gjarnan er í glímu beitt.
Getum fiskinn á hann veitt.
Helgi lét þessar limrur fylgja sínu svari, – „Varist sterana“:
Sterana átti' ann í stöflunum
og styrktist vel af þeim töflunum.
En er of margar át,
hann alveg varð mát
og gekk að lokum af göflunum.
Og síðan „Óþarfa áhyggjur“:
Farin er hún frá 'onum,
nú flestir einsemd spá 'onum,
sem óþarft er
með öllu hér
því upp er tippið á 'onum.
„Leikum okkur“ segir Pétur Stefánsson:
Í lífinu skaltu leika þér,
láta á súðum vaða,
því ævitíminn framhjá fer
á feikimiklum hraða.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is