Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Áformað er að opna minnst 30 veitingahús í miðborg Reykjavíkur á næstu 18 mánuðum. Samhliða þessari sögulegu fjölgun bendir margt til að mörg veitingahús í miðborginni standi ekki undir núverandi leigu. Það gæti þýtt sársaukafulla aðlögun.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir dæmi um að búið sé að „keyra svo upp leiguna að staðirnir ráða ekki við það“. Vegna breyttrar stöðu í veitingageiranum hefur Reginn endurskoðað áform um fjölda veitingarýma á Hafnartorgi.
Þurfa fleiri ferðamenn
Eins og rakið var í Morgunblaðinu í gær eru vísbendingar um að spár um fjölgun ferðamanna í ár rætist ekki. Það sama gildir um veitingahús og hótel að fyrirhugað er að stórauka starfsemina í miðborginni næstu ár. Mun sá rekstur eiga mikið undir því að ferðamönnum fjölgi meira. Þeir hagsmunir ná líka til lífeyrissjóða.Mörg veitingahús fylgja hótelum. Má þar nefna að við Laugaveg og Lækjargötu eru að rísa þrjú hótel sem verða með jafnmörgum veitingahúsum. Við Skúlagötu, Snorrabraut, Hörpu, Héðinsreit og Austurvöll eru sambærileg áform. Þá verður á næstu vikum opnað nýtt hótel með veitingahúsi á Tryggvagötu. Þessi hótel munu rúma á annað þúsund gesti hverja nótt, sem samsvarar hundruðum þúsunda gistirýma á ári.