Anna S. Halldórsdóttir
Anna S. Halldórsdóttir
Anna Sigríður Halldórsdóttir, hagfræðingur og stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum, telur að tryggja þurfi í samþykktum sjóðsins að sjóðfélagar sjálfir hafi lokaorðið um hvaða fyrirtæki sé trúað fyrir því að reka sjóðinn fyrir þeirra hönd.

Anna Sigríður Halldórsdóttir, hagfræðingur og stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum, telur að tryggja þurfi í samþykktum sjóðsins að sjóðfélagar sjálfir hafi lokaorðið um hvaða fyrirtæki sé trúað fyrir því að reka sjóðinn fyrir þeirra hönd. Þannig segist hún að nokkru marki taka undir tillögu Halldórs Friðriks Þorsteinssonar sem liggur fyrir aðalfundi sjóðsins sem haldinn verður 30. maí næstkomandi. Tillaga Halldórs Friðriks miðar að því að numin verði úr samþykktum sjóðsins grein 4.9 sem kveði á um að Arion banki sé rekstraraðili hans.

„Ég tel að það sé meginatriðið, að sjóðfélagar ráði þessu en ekki eingöngu stjórnin eins og tillaga Halldórs Friðriks leiðir af sér. Því tel ég að bæta þurfi við tillöguna til að tryggja aðkomu sjóðfélaga að svona mikilsháttar ákvörðun,“ segir Anna.

Anna hefur setið sem aðalmaður í stjórn Frjálsa frá árinu 2013 og hún gefur áfram kost á sér til setu þar.

„Ég tel stjórnina hafa unnið gott starf við að laga umgjörð sjóðsins að nýjum kröfum.“ Bendir hún í því sambandi á að stjórnin hafi nú lagt fyrir aðalfund tillögu um að breyta stjórnskipan sjóðsins á þá leið að sjóðfélagar muni kjósa alla stjórnarmennina sjö í stað fjögurra eins og nú er. Í dag gera samþykktirnar ráð fyrir því að rekstraraðili sjóðsins, Arion banki, skipi hina þrjá.

Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að Hróbjartur Jónatansson og Halldór Friðrik hafi báðir lýst yfir framboði til stjórnar sjóðsins en kosið verður um tvö stjórnarsæti af sjö á honum.