Ingibjörg Árnadóttir fæddist 26. september 1935. Hún lést 6. maí 2018.
Útför Ingibjargar fór fram 15. maí 2018. mbl.is/minningar
Ég gekk inn í virðulegan Vífilsstaðaspítala. Þar hafði ég aldrei komið inn áður þó húsið hafi sett svip á útsýnið úr herbergisglugga mínum öll uppvaxtarárin. Inga móðursystir mín var nýkomin hingað. Hún svaf vært þegar ég kom en glaðvaknaði: „Árni Brynjar minn, ert þú kominn ofan úr Borgarfirði.“ Ég settist, málrómurinn og fasið var svo líkt Helga ömmu að mér var hálfbrugðið. Hún spurði frétta af minni fjölskyldu og ég á móti um hennar. Ég fann að hún var stolt og glöð yfir afkomendum sínum. Hún varð óróleg yfir því að ég þyrfti að fá einhverja hressingu. Það var ekki við annað komandi en að fara á fætur og við fórum fram í bjarta borðstofuna. Það var fallegt útsýnið út um suðurgluggana á Vífilsstöðum og hér var hún í verknámi í hjúkrunarfræði á sínum tíma. Við fengum gott kaffi og talið barst að ættarmótinu á Brimilsvöllum 1983 til að minnast 100 ára ártíðar Hans B. Árnasonar föðurafa hennar. Hún fór fyrir samstilltum hópi afkomenda sem gerðu þessi helgi ógleymanlega. Hátíðleg messa í Brimilsvallakirkju, fallegir sálmar og Helga amma lék undir á orgelið. Sungið og dansað á bæjarhólnum á Holti um kvöldið. Haddi frændi og sumir Holtsbræðra fór á sjóinn frá Völlum um morguninn og sóttu fisk í soðið handa mannskapnum. Systkinin frá Holti voru himinglöð og brosandi alla helgina. Inga átti stóran þátt í hvað þetta var allt vel skipulegt. Við fórum lengra aftur í tímann, þegar við eldri börn þeirra systra vorum að vaxa úr grasi. Hún hafði svo miklar áhyggjur af Tómasi Árna, hann borðaði varla neitt langt fram eftir aldri. Ég var til samanburðar, sporðrenndi kúfuðum diskum og spratt eins og fífill í túni. Frændi minn fékk ágæta matarlyst fyrir mörgum áratugum svo það áhyggjuefni hvarf en alltaf ferskt í minni móðurinnar. Barnauppeldið er alltaf stóra viðfangsefni lífsins hjá foreldrunum. Við færðum okkur inn á stofuna aftur.Talið barst að fæðingu minni þar sem hún fékk að vera hjá yngri systur sinni. Erfið fæðing, fæðingalæknirinn þurfti að nota flest í verkfæratöskunni. Falleg og brosandi frænka hefur boðið lerkaðan dreng, með tangarför á stóru höfðinu, velkominn í heiminn. Mamma talaði oft um hvað það hefði verið ómetanlegt að hafa Ingu hjá sér í gengum þolraunina. Það kom svipmikil kona í dyrnar á stofunni og sagði okkur að nú væri kominn kvöldmatur á Vífilsstöðum. Inga blikkaði mig og sagðist ekki vera svöng en við ákveðum að hlýða húsaga. Hún fór í skúffuna og nestaði mig með sælgæti fyrir heimferðina. Langt og gott faðmlag og þegar ég var kominn niður á stigapall kallaði hún til mín veifandi: „Bless Árni minn, bið að heilsa öllum.“ Fallega brosið átti hún enn þrátt fyrir harða ásókn veikinda undanfarið. Ég trúi að Inga hafi fengið góðar móttökur „heima“ þegar hún kom vegmóð úr lífsgöngunni. Þau hafa beðið með góðgæti á dúkuðu borði í Litlu-stofunni, foreldrar og yngri systir eins og þeim var lagið. Hjartfólgnum ömmum, öfum og fleirum hefur verið boðið til fagnaðar. Frænku minni þakka ég samfylgdina frá minni fyrstu stundu.
Árni Brynjar Bragason.
Bergljót Líndal.