Staðreyndir eiga undir högg að sækja þegar kemur að kosningum. Þær breytast í „borið saman við“ og „miðað við“ og „í tíð fyrri meirihluta“ og eftir sitjum við og skiljum ekkert

Það er til ákveðin tegund af fólki sem er svo merkilegt að allt sem gerist hjá því gerist annaðhvort alltaf eða aldrei. Ekki oft eða sjaldan eða stundum. Því tekst nánast ekki að mynda setningu án þess að nota þessi orð. Af hverju er þetta alltaf svona? Af hverju getum við aldrei gert þetta?

Ég efast um að þetta fólk taki eftir þessu en þetta hefur á sér neikvæðan blæ. Það er nefnilega harla fátt sem gerist annaðhvort alltaf eða aldrei.

Ég var einu sinni með yfirmann sem byrjaði flestar samræður á þessum systrum. Og trúið mér, það var ekki til að hrósa fólki eða ræða neitt á eðlilegum nótum. Það var alltaf verið að segja okkur að annað hvort værum við aldrei almennileg eða alltaf ömurleg. Sem er almennt ekki til þess fallið að ná því besta útúr starfsfólki. Eða bara nokkrum, ef útí það er farið.

Nú er ég ekki að stinga uppá að fólk fari almennt að rannsaka hlutföll á ýmsum daglegum viðburðum. Af hverju kemurðu of seint í 35 prósentum tilvika? Af hverju gerirðu þetta bara í einu tilviki af hverjum fimm? Það snýst meira um viðhorfið. Hvernig þú talar við fólk.

Nú er einmitt sá tími sem þessar týpur blómstra. Hér í Reykjavík höfum við sextán gerðir af þeim. Sem væri allt í lagi ef þær væru ekki allar í framboði. Pólitíkin í borginni er nefnilega rekin áfram af alltaf/aldrei fólkinu. Borgarsjóður hefur aldrei staðið betur eða aldrei verr. Allt eftir því hver talar. Borgarbúar hafa aldrei haft það jafn gott hjá sumum. Aldrei jafn skítt hjá öðrum. Meirihlutinn gerir alltaf allt til að gera lífið ömurlegra fyrir alla.

Staðreyndir eiga undir högg að sækja þegar kemur að kosningum. Þær breytast í „borið saman við“ og „miðað við“ og „í tíð fyrri meirihluta“ og eftir sitjum við og skiljum ekkert.

Svo er náttúrlega blæbrigðamunur á þessu því stundum breytist þetta í frábært/ömurlegt. Undir það falla hlutir eins og borgarlínan, þétting byggðar, hvar við ætlum að hola þessum Landspítala niður, þrengja götur, moka í holur og setja allt mögulegt í stokk.

Önnur útfærsla er að allt sé „það eina“ sem einhver gerir eða vill. Það eina sem meirihlutinn gerir er að þrengja götur og það eina sem sjálfstæðismenn vilja er að fjölga bílum. Þetta er ekki beint gáfulegt.

Fyrir venjulega kjósendur er það frekar ólíklegt að allar hugmyndir sem koma fram í kosningabaráttu séu annaðhvort frábærar eða ömurlegar. Það væri býsna ótrúleg tilviljun. Svona tölfræðilega.

Það merkilega við þetta er að þegar öllu er á botninn hvolft þá eru flestir sammála. Svona nokkurn veginn. Það þarf fleiri (og helst ódýrari) íbúðir, það þarf að bæta almenningssamgöngur, manna leikskóla, laga göturnar og svona hitt og þetta sem gerir Reykjavík að betri borg.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er geggjuð pæling, en gætum við talað um svona hluti? Svona einu sinni. Bara svo við förum ekki í enn einar kosningarnar sem minna á húsfélagsfund hjá fólki með reiðistjórnunarvanda.