Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Eldgos sem urðu hér á árunum 1973-2014 gerðu boð á undan sér. Fyrirboðarnir voru jarðskjálftar sem urðu yfirleitt skömmu áður en gosin brutust út. Þetta kemur fram í nýrri grein eftir dr. Pál Einarsson jarðeðlisfræðing sem birtist í maíhefti vísindaritsins Frontiers in Earth Science , (Short-Term Seismic Precursors to Icelandic Eruptions 1973-2014).
Jarðhræringar fara á undan
Á þessu tímabili urðu 21 eldgos, svo staðfest sé. Auk þess urðu mörg kvikuinnskot sem náðu ekki upp á yfirborðið. Öllum þessum atburðum fylgdu jarðhræringar sem einkenna kvikuhreyfingar. Áður en eldgosin brutust út mældust jarðskjálftar sem fylgja eldvirkni og var fyrirvarinn frá 15 mínútum upp í 13 daga. Í um helmingi eldgosanna var þessi fyrirvari innan við tvær klukkustundir.
Óvenju langir fyrirvarar
Þrjú eldgosanna urðu með óvenju löngum fyrirvara. Þannig liðu 30 klukkustundir frá því að jarðhræringar komu fram á mælum þar til Heimaeyjargosið braust út aðfaranótt 23. janúar 1973. Fyrirvari gossins í Gjálp 1996 var 34 klukkustundir og 13 dagar áður en Bárðarbunga gaus 2014 og jarðeldar komu upp í Holuhrauni. Talið er að hinn langa fyrirvara að Heimaeyjargosinu 1973 megi rekja til þess að kvikan braut sér leið af 15-25 kílómetra dýpi.Forleikurinn að Gjálpargosinu var óvenjulegur, að því er segir í grein Páls. Upphaf atburðarásarinnar var flókið og komu líklega fleiri en eitt kvikuhólf við sögu. Aðdragandinn að gosinu í Bárðarbungu var líka sérstakur því kvikan ruddist nær lárétt undir yfirborðinu 48 kílómetra leið áður en hún braust upp í Holuhrauni.
Aðdragandi 14 af eldgosunum 21 sem urðu á tímabilinu sást nógu snemma til að hægt var að vara fólk við aðsteðjandi eldgosi. Í fjórum tilvikum til viðbótar sáust teikn um að eldgos væri aðsigi áður en gossins varð vart. Í einungis þremur tilvikum sást til eldgosanna áður en mælar voru athugaðir og merki um jarðhræringar sáust.
Hekla sker sig úr íslenskum eldfjöllum því hún gýs með miklu styttri fyrirvara en önnur eldfjöll. Skammtímafyrirvarinn hefur einungis verið 23-79 mínútur áður en eldgos hefst. Þessi skammi fyrirvari er sérstakt áhyggjuefni vegna umferðar ferðamanna í hlíðum fjallsins og flugumferðar yfir það. Auk þess hafa eldgos í Heklu yfirleitt byrjað af miklum krafti.