Hermann Ingimundarson fæddist á Hafnarhólmi 9. júní 1948. Hann lést á heilbrigðistofnun Vesturlands 29. apríl 2018.
Foreldrar hans eru Ingimundur Loftsson f. 22.7. 1921, d. 15.8. 1983 og Ragna Kristín Árnadóttir f. 9.6. 1931. Þau bjuggu á Hafnarhólmi í Strandasýslu, fluttust síðar á Drangsnes.
Systkini Hermanns eru:
Guðrún f. 19.4. 1947, Árni f. 2.3. 1950, d. 7.6. 2013, Guðbrandur f. 14.5. 1951, Svanur Hólm f. 27.12. 1952, Loftur f. 12.6. 1954, d. 17.12. 1977, Hanna f. 8.11. 1955, Hafdís Hrönn f. 17.4. 1958, Erling Brim f. 15.9. 1960 og Gunnar Ingi f. 21.1. 1969,d. 10.2. 2008. Bróðir Hermanns samfeðra var Sigurður Jón f. 3.2. 1944, d. 11.5. 1978.
Hermann giftist Krystynu Stankiewicz þann 29.10. 1992 og eiga þau eina dóttur. Dóttir þeirra er Inga f. 7.2. 1993 og kærasti hennar er Gunnar Páll Birgisson f. 13.8. 1984.
Af fyrra hjónabandi átti Hermann: Hilmar Vignir f. 20.3. 1973, kona hans er Hólmfríður Kristjana Smáradóttir f. 3.11. 1974 og eiga þau 3 börn. Kristín Björk f. 19.11. 1974, sambýlismaður hennar er Ólafur Svavarsson f. 18.9. 1976 og eiga þau 5 börn. Sæunn f. 25.5. 1978, sambýliskona hennar er Harpa Lind Magnúsdóttir f. 7.12. 1979 og eiga þær 4 börn. Heiðrún f. 12.8. 1983.
Hermann ólst upp á Hafnarhólmi en fór ungur að stunda sjóinn. 17 ára fór hann á vertíð í Sandgerði og sigldi t.d. til Englands með afla. Eftir þriggja ára vertíðarsetu fluttist hann á Drangsnes. Þar stundaði hann sjó og var m.a. vélstjóri í frystihúsinu á Drangsnesi. Eftir þá vinnu keypti hann sinn eigin bát, Snæbjörn ST68 og gerði hann út.
Útför Hermanns fer fram frá Drangsneskapellu í dag, laugardaginn 19. maí, klukkan 13.
Elsku pabbi, ég skrifa þetta með söknuði.
Að alast upp á Drangsnesi var yndislegur tími. Þegar við krakkarnir vorum að flytja að heiman kynntist pabbi Krystynu og vorum við svo ánægð fyrir hans hönd að vera ekki einn út lífið. Síðan eignuðust þau Ingu systur, það var mikill gleðigjafi fyrir þau að ala upp barn saman.
Pabbi spilaði mikið á harmoniku og píanó. Sæa systir náði einhverjum tökum á því, en Inga fékk alla hæfileikana hans til að spila á hljóðfæri, aftur á móti fékk ég veiðidelluna eins og pabbi.
Öll sumur var farið á Drangsnes með barnabörnin og pabba fannst ekkert skemmtilegra en að fara með okkur á veiðar, hvort sem það var á Sæbirni, trillunni hans, til að veiða risaþorska á veiðistangir, (veit ekki hversu marga spúnum við höfum tapað á þessum veiðum) eða uppí Urriðavatn.
Alltaf var það pabbi sem veiddi mest, við hin fórum yfirleitt tómhent heim, hann var bara fæddur í að veiða! Þetta var gert ár eftir ár, einnig var mikið farið í Hveravík að veiða, pabbi var í skýjunum þegar makríllinn kom og það var svo skemmtilegt að veiða svona saman, oft á tíðum fóru Andri Smári og Tristan Hilmarssynir með okkur að veiða, þetta var frábær tími sem lifir í minningunni um yndislegan mann, hann Hermann Ingimundarson, Drangsnesing í húð og hár.
Bræðurnir 5 sem hafa farið frá okkur í lifandi lífi horfa nú á okkur á himninum og við vitum að þeir eru allir þarna saman ásamt Ingimundi afa. Elsku pabbi, við systkinin elskum þig og munum sakna þín en eigum góðar minningar. Hvíldu í friði.
Þín dóttir,
Kristín Björk
Hermannsdóttir.
Hví var þessi beður búinn
barnið kæra, þér svo skjótt?
Svar af himni heyrir trúin
hljóma gegnum dauðans nótt.
Það er kveðjan: ,,Kom til mín!“
Kristur tók þig heim til sín.
Þú ert blessuð hans í höndum,
hólpin sál með ljóssins öndum.
(Björn Halldórsson í Laufási)
Hvíl í friði.
Mamma.
Hermann bjó lengst af á Drangsnesi þar sem hann eignaðist fjölskyldu og með fyrri konu sinni átti hann fjögur börn. Það var ekki algengt á þessum árum að vera einstæður faðir en honum tókst það nokkuð vel. Hann elskaði börnin sín og var mjög umburðarlyndur þegar þau voru að vaxa úr grasi og húsið fullt af vinum.
Hermann giftist Krystynu og eignaðist með henni eina dóttur. Hann var hamingjusamur með henni og átti með henni gott líf. Með þeim höfum við átt góða og skemmtilega tíma. Það var gaman að horfa á þau gera og græja garðinn sinn þar sem margar tilraunir fóru fram. Þau voru samtaka í að rækta ýmislegt annað góðgæti.
Það var erfitt að horfa á þennan flotta hrausta mann verða lasinn og geta ekki lengur stundað sjóinn eins og honum lét best. En hann var handlaginn og vandvirkur. Hann fann sér eitt og annað að gera. Nú í seinni tíð var hann að saga út í krossvið. Þetta eru fallegir munir sem þurfti mikla nákvæmni til að gera. Handsagaðar hillur með fullt af fínum myndum. Þegar ég sá þetta fyrst hjá honum ákvað ég að eignast eitthvað af þessum hlutum. Þessi handverk eru meistarasmíði. Hermann barðist við sjúkdóma, fékk hvítblæði og hjartaáföll en einhvern veginn náði hann sér alltaf aftur. Því fannst manni eins og hann yrði eilífur þar sem ekkert virtist bíta á hann. Það verður öðruvísi að koma í litla þorpið okkar. Það verður annar bragur á kaffibollanum og spjallið verður ekki það sama.
Í stórum systkinahópi er komið stórt skarð. 5 bræður farnir frá okkur alltof snemma. Faðir okkar fór líka alltof snemma. En svona er lífið. Sorg og gleði eru vinir í okkar fjölskyldu rétt eins og hjá svo mörgum öðrum.
Ég sé fyrir mér ykkur alla 5 bræður bralla eitt og annað á æðri stað og pabba gamla horfa á og hafa gaman af. Ykkar er allra saknað og mun ég heiðra minningu ykkar eins og ég get. Í dag er ég þakklát fyrir það sem ég átti og glöð með það sem ég á.
Hafdís.
Eftir að heilsan gaf sig beitti Hermann, þó að önnur höndin væri eiginlega alveg máttlaus, hann lyfti henni bara eins og hann vildi hafa hana. Hann var nefnilega ótrúlega þrár og það fleytti honum áfram í mörg ár.
Hermann var búinn að fá sinn skerf af veikindum, fékk hjartaáfall fyrst 45 ára og seinna annað, þá stóð minn maður tæpt og fékk far með þyrlu suður, en vissi lítið af því. Ekki var þó allt búið því Hermann fékk hvítblæði og var mjög mikið veikur. Og enn fleytti Hafnarhólmsþráin honum ansi langt, en hann náði sér eiginlega aldrei að fullu eftir það. Svo bilaði heilsan bara smátt og smátt og hafa síðustu árin verið honum mjög erfið.
Hermanni fannst alltaf mjög gaman að veiða og gat staðið og kastað fyrir fiski tímunum saman og oft þegar keyrt var norður stóð Hermann við gömlu sundlaugina í Hveravík, að veiða. Hermann var mjög músíkalskur og spilaði á harmonikku og munnhörpu. Handlaginn var hann eins og sjá má á heimili hans að Grundargötu 10. Hann og Krystyna kona hans voru mjög samtaka í þeim málum.
Hermann smíðaði líka einstaklega fallega hluti í bílskúrnum meðan heilsan leifði. Ég má til með að láta fylgja eina sögu af okkur og pabba á T 319.
Einu sinni sem oftar þurfti að sækja mjólk á Sandnes, á leiðinni er brekka sem lætur lítið yfir sér inn eftir, en á leiðinni til baka var hægt að svífa ef gefið var í og Hermann gaf vel í og sveif og pabbi missti andann. Hermann sneri sér glottandi að honum og spurði: „Á ég að snúa við og sækja hann?“ (andann) Pabbi bara horfði og sagði ekki orð á leiðinni en hugsaði honum örugglega þegjandi þörfina. Svona var Hermann púki í sér.
Áföll fjölskyldunnar hafa verið mörg og erfið síðustu ár og enn stendur hetjan hún mamma keik þó að höggin séu þung, svo þung að manni finnst nóg um. „Þetta er lífið,“ segir hún bara, „við ráðum ekki.“
Ég kveð Hermann bróður minn og vona að skref hans verði léttari hér eftir. Ég votta eiginkonu hans, börnum og öllum ættingjum samúð. Megi minning Hermanns lifa með okkur öllum.
Kveðja,
Hanna.