Vafinn Kristinn Ingi Halldórsson Valsmaður með reifað höfuð og Eyjólfur Héðinsson báðir með auga á boltanum í jafnteflisleiknum á Hlíðarenda.
Vafinn Kristinn Ingi Halldórsson Valsmaður með reifað höfuð og Eyjólfur Héðinsson báðir með auga á boltanum í jafnteflisleiknum á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Björn Már Ólafsson sport@mbl.is Hvorki Valur né Stjarnan hafa fengið þá byrjun á Íslandsmótinu sem þau hefðu viljað. Eftir fjóra leiki er Valur með sex stig og Stjarnan með þrjú.

Á Hlíðarenda

Björn Már Ólafsson

sport@mbl.is

Hvorki Valur né Stjarnan hafa fengið þá byrjun á Íslandsmótinu sem þau hefðu viljað. Eftir fjóra leiki er Valur með sex stig og Stjarnan með þrjú. Jafnteflið í gærkvöldi þurfti því ekki að koma neinum á óvart enda höfðu bæði lið miklu að tapa en gátu bæði sætt sig við jafntefli. Gæðin í leiknum voru ekkert sérstök. Mörkin komu oft eftir klaufagang í varnarleiknum og sóknarlega var hvorugt liðanna nálægt sínu besta.

Stjörnumenn breyttu í gær úr þriggja manna varnarlínunni sem þeir hafa spilað hingað til í sumar yfir í fjögurra manna línu. Virkaði það vel enda fengu þeir þá aukamann á miðjuna og var miðjuspil þeirra afskaplega gott í gær. Sérstaklega fóru Baldur Sigurðsson og Eyjólfur Héðinsson mikinn á köflum. Einbeitingarleysi gerði samt vart við sig í öftustu línu sem fyrr.

Valsmenn höfðu ekki sama hraða í sóknarleik sínum og einkenndi þá í fyrra. Liðið saknaði Dions Acoffs á hægri kantinum og danska framherjaparið átti ekki sinn besta leik. Sérstaklega var fyrri hálfleikurinn dapur af þeirra hálfu.

Svona toppslagir lúta oft öðrum lögmálum en venjulegir deildarleikir og enn á eftir að koma í ljós hvort byrjunarerfiðleikarnir séu einmitt bara það – byrjunarerfiðleikar – eða eitthvað miklu, miklu meira.